Rehm missti hægri fótinn fyrir neðan hné þegar hann var ellefu ára gamall og hefur verið fremsti langstökkvari heims í sínum fötlunarflokki undanfarin ár.
Rehm er 25 ára og notar gervifætur frá íslenska stoðfyrirtækinu Össuri í keppni. Um helgina keppti hann með ófötluðum á þýska meistaramótinu í frjálsum íþróttum og varð meistari er hann stökk 8,24 m.
Um leið stórbætti hann eigið heimsmet í fötlunarflokki F44 en náði einnig lágmarki fyrir EM í Zürich síðar í sumar. Nú á eftir að koma í ljós hvort að Frjálsíþróttasamband Evrópu gefi honum keppnisleyfi.

Fordæmi eru fyrir því en Oscar Pistorius frá Suður-Afríku varð árið 2011 fyrstur fatlaðra íþróttamanna til að vinna verðlaun á HM ófatlaðra er hann vann brons með sveit Suður-Afríku í 4x400 boðhlaupi karla. Pistorius var svo á meðal keppenda á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012.
Pistorius notaðist sem kunnugt er einnig við gervifætur frá Össuri í sínum keppnum.
Þó er deilt um hvort að gervigóturinn sem Rehm notar gefi honum forskot fram yfir aðra keppendur í langstökki. „Gervifóturinn er fimmtán sentímetrum lengri en hinn fótleggurinn hans. Ég er með jafnlanga fætur,“ sagði Sebastian Bayer, ríkjandi Evrópumeistari í greininni, en hann varð fimmti í gær.

Sjálfur vill Rehm fá þessi mál á hreint. „Ég skil vel að þetta sé rætt. Ég vil sjálfur fá niðurstöðu, bæði mín vegna og fyrir aðra íþróttamenn.“
„Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að ég hafi ekki forskot fram yfir aðra. En það er gríðarlega mikilvægt að þessi mál verði skýrð. Sanngirni í íþróttum er mér mikilvægara en allt annað.“

