Lífið

Baby ætlar að verða bóndi

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Aþena og Arnar Már ná vel saman.
Aþena og Arnar Már ná vel saman.
„Þetta er uppáhaldsmyndin mín. Systir mín horfði alltaf á hana þegar ég var yngri þannig að ég byrjaði að horfa á hana líka. Ég hef örugglega horft á hana upp undir tvö hundruð sinnum,“ segir Aþena Eir Jónsdóttir. Hún leikur aðalkvenhlutverkið í uppsetningu Fjölbrautaskóla Suðurnesja á söngleiknum Dirty Dancing. Söngleikurinn er byggður á samnefndri kvikmynd sem sló fyrst í gegn þegar hún var frumsýnd árið 1987. Í myndinni lék Jennifer Grey Frances Houseman sem var oftast kölluð Baby. Í uppsetningu FS heitir sá karakter Lilla og Aþena er í því hlutverki.

„Ég ætlaði bara að fara í dansprufurnar og komst í gegnum þær. Síðan var ég kölluð inn og beðin um að fara í leikprufu og fékk hlutverkið. Ég er rosalega ánægð með það,“ segir Aþena. Hún er á fyrsta ári í Fjölbrautaskóla Suðurnesja þó hún sé aðeins fimmtán ára því henni var flýtt um eitt ár. Hún er yngsti meðlimurinn í sýningunni.

„Það er gert grín að mér öðru hverju því ég er yngst. Svo er sá sem leikur á móti mér fimm árum eldri en ég þannig að það er svolítill munur,“ segir Aþena. Arnar Már Eyfells leikur Jonna en í upprunalegu myndinni var það Patrick Swayze sem túlkaði hann.

Aþena hefur æft dans síðan hún var tíu ára.
„Arnar Már er mjög góður og sjarmerandi. Hann á yngri systur sem er jafngömul og ég þannig að hann lítur á mig sem litlu systur sína.“

Dirty Dancing er frumsýnt á morgun í Andrews Theater á Ásbrú og eru aðeins fimm sýningar í boði næstu helgi. 

„Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt ferli. Það skemmtilegasta sem ég hef gert og það erfiðasta. Ég er mjög spennt og stressuð á sama tíma fyrir frumsýningunni. Söguþráðurinn í sýningunni er sá sami en sumum atriðum hefur verið örlítið breytt,“ segir Aþena. Aðspurð um goðsagnakenndu lyftuna úr myndinni segir hún það atriði aðeins breytt.

„Það er lyfta en hún er ekki eins og í myndinni. Þessi lyfta í myndinni er náttúrulega ein sú erfiðasta sem hægt er að finna í dansi og því útfærðum við hana aðeins öðruvísi.“

Aþena hefur æft dans síðan hún var tíu ára en veit ekki hvort hún ætli að leggja leiklistina fyrir sig í framtíðinni.

„Ég hef aðra drauma. Mig langar að verða bóndi. Ég er ekki búin að ákveða hvar en ég ætla á Hvanneyri eftir Fjölbrautaskólann. Útskrifast sem búfræðingur og tamningamaður og skella mér uppí sveit.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.