Lífið

Tungumálaforrit með gervigreind

Ugla Egilsdóttir skrifar
Brandon Hill, stofnandi Japan Night, ásamt Þorsteini Gunnarssyni, stjórnarformanni Cooori, og Arnari Jenssyni, framkvæmdastjóra Cooori. Mynd/ÚR Einkasafni.
Brandon Hill, stofnandi Japan Night, ásamt Þorsteini Gunnarssyni, stjórnarformanni Cooori, og Arnari Jenssyni, framkvæmdastjóra Cooori. Mynd/ÚR Einkasafni. Úr einkasafni
„Við unnum lokakeppni Japan Night sem var í San Francisco í nóvember,“ segir Arnar Jensson, framkvæmdastjóri Cooori, sem sérhæfir sig í tungumálakennslu á netinu. „Keppnin er fyrir fyrirtæki sem eru að hefja rekstur í Japan. Hönnuður hjá Apple var í dómnefnd, og margir stórir fjárfestar. Við höfum fengið talsverða umfjöllun í blöðum og tímaritum í Japan út af keppninni,“ segir Arnar.

„Við erum að búa til hugbúnað fyrir tungumálanám á netinu. Ég byrjaði með það einn árið 2009, strax eftir að ég kláraði doktorsnámið í verkfræði hérna í Tókýó. Ég var að læra japönsku í hjáverkum. Upp frá því fóru að spretta fram hugmyndir um hvernig væri möguleiki að betrumbæta tungumálanám. Ég fór heim í nokkra mánuði og fékk gott fólk til liðs við mig, og ýmsa styrki frá Íslandi. Umhverfið til þess að stofna sprotafyrirtæki er mjög gott á Íslandi, miðað við Japan,“ segir hann.

Tungumálaforritið Cooori er með gervigreind. „Gervigreindin lærir á minnið í hverjum nemanda fyrir sig. Hún aðlagar námsefnið og námshraðann að hverjum og einum. Í dag bjóðum við upp á kennsluefni í japönsku fyrir enskumælandi. Nemendur í japönsku í Háskóla Íslands nota kerfið, nemendur í MH, í fleiri háskólum í Japan, og mörg þúsund á netinu. Við erum ekki að kenna fleiri tungumál enn sem komið er,“ segir Arnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.