Lífið

Reykvísk hús sýnd í MIT-safninu

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Katrín Sigurðardóttir
Katrín Sigurðardóttir Fréttablaðið/GVA
Katrín Sigurðardóttir myndlistarkona heldur sýningu á MIT-safninu í Boston í byrjun í næsta árs.

Safnið er hluti hins virta tækniháskóla MIT, Massachusetts Institute of Technology, en sá er fyrsti arkítektaskólinn í Bandaríkjunum og leiðandi á heimsvísu í öllu sem viðkemur verkfræði og hönnun.

Katrín kemur til með að sýna verk sín úr seríunni Óbyggðu húsin, en þau eru öll byggð á húsum sem stóð til að reisa í Reykjavík, en kláraðist ekki að byggja.

„Sýningin hefur þannig fókus sem tengist bæði arkítektúr og Reykjavík,“ segir Katrín sem sýnir einnig nýja seríu sem hún hefur ekki sýnt áður á Íslandi, en sú er byggð á æskuheimili hennar í Hlíðunum.

Á skólalóð MIT eru byggingar eftir marga þekktustu arkítekta heims, meðal annars hinn ameríska-kínverska I.M. Pei, sem er arkítektinn að hinu fræga John F. Kennedy-bókasafni í Boston, en sá á einnig heiðurinn af byggingunni sem MIT-safnið er í.

„Á lóðinni eru líka margir helstu listamenn heims með verk, til dæmis Alexander Calder, Henry Moore og Pablo Picasso – þannig að sýningin er í dálítið flottu samhengi,“ segir Katrín, létt í bragði.

Katrín var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í fyrra og sýndi á Metropolitan Museum of Art í New York þar áður.

Í framhaldi af sýningunni í Boston verður Katrín með sýningu í Parasol Unit-samtímalistasafninu í London.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.