Lífið

Þær voru eins og kvikmyndastjörnur

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Í byrjun tíunda áratugarins voru ofurfyrirsætur eins og súperstjörnur. Þær voru út um allt og þénuðu milljónir á milljónir ofan. Á þessum tíma varð setningin „Ég fer ekki fram úr fyrir minna en tíu þúsund dollara á dag“ til og lýsti þetta þeirri gríðarlegu eftirspurn sem var eftir súpermódelunum.

Fimm konur eiga heiðurinn af upphafi gullaldartímabils súpermódelsins: Naomi Campbell, Cindy Crawford, Christy Turlington, Linda Evangelista og Tatjana Patitz. Seinna bættust fyrirsæturnar Stephanie Seymour, Claudia Schiffer og Kate Moss í þennan hóp kvenna sem virtist stjórna heiminum.

„Þessar stelpur voru svo stórkostlegar fyrir tískuheiminn og endurspegluðu þennan tíma. Þær voru eins og kvikmyndastjörnur,“ segir Anna Wintour, ritstjóri Vogue, um þetta tímabil.

Um miðjan tíunda áratuginn lauk þessu gullaldartímabili og seint á sama áratug var ofurfyrirsætum skipt út fyrir leikkonur, söngkonur og aðrar þekktar konur á forsíðum tískutímarita.

Súpermódelin hafa samt sem áður haldið velli og hafa nær allar snúið aftur í módelbransann, nú síðast Stephanie Seymour sem er nýtt andlit Estée Lauder. En þó að súpermódelin hafi snúið aftur þá er ólíklegt að stemningin í kringum þau verði sú sama og fyrir rúmlega tuttugu árum.

Claudia Schiffer

43 ára

1,80 m á hæð

Claudia sat fyrir hjá Guess í tilefni þrjátíu ára afmælis merkisins árið 2012.

Naomi Campbell

43 ára

1,75 cm á hæð

Naomi er einn af dómurum í fyrirsætuþáttunum The Face sem sýndir eru á Stöð 2.

Linda Evangelista

48 ára

1,75 m á hæð

Linda varð andlit verslunarkeðjunnar Talbots árið 2010.

Cindy Crawford

47 ára

1,75 m á hæð

Cindy hætti sem fyrirsæta í fullu starfi árið 2000. Hún sneri aftur í bransann árið 2011 þegar hún landaði forsíðu á mexíkóska Vogue.

Christy Turlington

45 ára

1,78 m á hæð

Christy gerði nýlega auglýsingasamning við Jason Wu og endurnýjaði kynnin við Calvin Klein en hún var aðalfyrirsæta merkisins í fjöldamörg ár.

Stephanie Seymour

45 ára

1,78 m á hæð

Í vikunni var opinberað að Stephanie yrði nýtt andlit Estée Lauder.

Kate Moss

40 ára

1,70 m á hæð

Kate prýddi forsíðu Playboy seint á síðasta ári en beðið var eftir heftinu með mikilli eftirvæntingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.