Lífið

Ódýrt ferðlag um heiminn í gegnum Intervac

Marín Manda skrifar
Sesselja Traustadóttir hefur ferðast víða með hjálp Intervac.
Sesselja Traustadóttir hefur ferðast víða með hjálp Intervac.
Sesselja Traustadóttir, umboðsmaður Intervac á Íslandi, hvetur fólk til að nýta sér heimilisskipti til að upplifa ódýrara frí og kynnast fólki úti um allan heim.

„Þetta er alveg frábær kostur og gríðarlega vinsælt. Þegar maður dettur inn í þetta þá uppgötvar maður alveg nýjan heim. Í kringum árið 2008 sprakk þetta út eins og fögur rós því fólk þarf ekki að gera annað en að kaupa flugmiðann. Samskiptin eru alfarið á milli fólksins sjálfs og svo er ég innan handar ef fólk er eitthvað óöruggt,“ segir Sesselja Traustadóttir, umboðsmaður Intervac á Íslandi.

Intervac-samtökin urðu til í Evrópu snemma á sjötta áratug síðustu aldar, þegar nokkrir kennarar voru að leita leiða til að ferðast ódýrt til annarra landa. Heimilaskipti þóttu góður kostur til að afla vina, auka skilning á milli þjóða og spara peninga. Síðan þá hafa samtökin vaxið og dafnað í takt við tímann og Intervac býður upp á þjónustu sína um allan heim fyrir fjölskyldur úr öllum stéttum þjóðfélagsins með í kringum 30 þúsund meðlimi.

„Öll Evrópa fer af stað í janúar og það er allt hægt í Intervac. Þetta byggist mikið á trausti og algengasta formið er að tvær fjölskyldur tala saman og ákveða að skipta sín á milli. Fólk getur verið mjög gestrisið og meira að segja hafa verið unglingaskipti á milli landa með góðum árangri.“

Sesselja segir að fólk horfi langt fram í tímann og upp til hópa sé það vel menntað fólk sem velji þennan ferðamáta. Hún segir ennfremur að það hafi komið upp skondnar aðstæður þar sem fólk hafi læst sig úti eða jafnvel að heimilisbíllinn hafi bilað úti á landi.

„Það er einkennandi að fólk í skapandi greinum sæki í þetta og víli ekki fyrir sér að gera skemmtilega hluti þótt það eigi ekki beinharðan peninginn,“ segir Sesselja.

Hægt er að skrá sig í samtökin á no.intervac-homeexchange.com/

Íslenski fáninn fékk að fljóta með í ferðalagið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.