Lífið

Sameina áhugamálin á vefsíðunni Femme

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Bloggsíðan Femme.is er farin í loftið en á vefnum verður samansafn af áhugamálum sex ungra kvenna. Á myndinni má sjá þær Söru Dögg Guðjónsdóttur, Mörtu Rún Ársælsdóttur, Eddu Gunnlaugsdóttur og Söru Sjöfn Grettisdóttur.
Bloggsíðan Femme.is er farin í loftið en á vefnum verður samansafn af áhugamálum sex ungra kvenna. Á myndinni má sjá þær Söru Dögg Guðjónsdóttur, Mörtu Rún Ársælsdóttur, Eddu Gunnlaugsdóttur og Söru Sjöfn Grettisdóttur. Mynd/Gróa Sigurðardóttir
„Hver og einn bloggari mun einblína svolítið á sitt eigið en vefsíðan verður samansafn af tísku, innanhússhönnun, lífsstíl, mat og menningu, með smá innsýn í persónulega lífið,“ segir Sylvía Dagmar Briem Friðjónsdóttir, en Sylvía er í hópi sex bloggara sem stofnað hafa bloggið Femme.is.

Stúlkurnar koma víða að og segir Sylvía að fjölbreytileikinn verði allsráðandi. „Ég hef sjálf verið að þjálfa á Dale Carnegie, hef unnið mikið með fólki og verð því með áhugaverð viðtöl við fólk og fleira skemmtilegt. Alexandra Helga mun birta alls konar uppskriftir, bæði hollar og óhollar, Marta Rún verður með umfjöllun um mat og menningu, Sara Dögg er innanhússarkitekt og mun taka púlsinn á því sem er að gerast í þeim bransanum, Edda mun koma inn á tísku og listir og Sara Sjöfn er mikil áhugamanneskja um hönnun og ætlar að veita innsýn í hönnunarheiminn.“

Edda Gunnlaugsdóttir bloggar einnig á síðunni en hún segir undirbúningsferlið hafa verið stórskemmtilegt. 

„Við komum allar úr mismunandi áttum og erum með mismunandi áhugamál. Sumar höfðu verið að blogga áður en aðrar höfðu mikinn áhuga á því að byrja að skrifa og á fyrsta fundi kom okkur öllum ótrúlega vel saman.“

Sylvía segir að bloggheimurinn hér á landi hafi sótt í sig veðrið undanfarin ár. „Það eru gríðarlega mörg blogg að spretta upp núna sem er alveg ótrúlega skemmtilegt. Fólk í dag er mikið í tölvunni og því er gaman að geta skoðað eitthvert skemmtilegt lesefni á vefnum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.