Finnland verður í pottinum á föstudaginn þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni EM 2016 í handbolta en Finnar gerðu sér lítið fyrir og lögðu fjórfalda heimsmeistara Rúmena, 62-61, í umspili um sæti í undankeppninni.
Finnar töpuðu fyrri leiknum á útivelli, 32-30, en unnu þann seinni á heimavelli í gær, 32-29. Þeir voru algjörlega með leikinn í höndum sér í stöðunni 30-22 en Rúmenar áttu frábæran lokakafla og minnkuðu muninn niður í þrjú mörk, 31-28.
Stuðningsmenn finnska liðsins í íþróttahöllinni í Karjaa gátu þó fagnað sögulegum sigri því heimamenn skoruðu eitt mark til viðbótar sem dugði til og fá Finnar nú stórþjóðir í heimsókn í undankeppninni. Það ætti ekki að minnka áhugann á íþróttinni þar í landi.
Finnskur handbolti virðist vera á mikilli uppleið en besta félagsliðið þar í landi, Cocks, komst í 8 liða úrslit Áskorandabikars Evrópu eins og Vísir greindi frá fyrir nokkrum vikum. Aldrei áður hefur finnskt lið komist svo langt í Evrópukeppni.
Markahæsti maður Finnlands í gær, Teemu Tamminen (8 mörk), er leikmaður Cocks sem kemur frá bænum Riihimäki. Þar má finna 10 prósent allra þeirra sem stunda handbolta í Finnlandi.
Bosnía og Hersegóvína, sem Ísland mætir í sumar í umspili um sæti á HM 2015, verður einnig í pottinum á föstudaginn þegar dregið verður en Bosníumenn unnu Grikki samanlagt, 55-45, í tveimur leikjum.
Bæði lið verða í neðsta styrkleikaflokki ásamt Ísrael, Úkraínu, Tyrklandi og Sviss sem var þriðja liðið sem komst í undankeppnina í gegnum umspilið í gær.
Ísland er í öðrum styrkleikaflokki og getur því mætt annað hvort Bosníu eða Finnlandi í riðlakeppninni.
EM 2016 fer fram í Póllandi 17.-31. janúar 2016 en drátturinn í undankeppni mótsins fer fram sem fyrr segir á föstudaginn klukkan 9.30.
Styrkleikaflokkarnir fyrir dráttinn:
1. flokkur: Danmörk, Spánn, Króatía, Frakkland, Serbía, Ungverjaland, Slóvenía.
2. flokkur: Ísland, Þýskaland, Makedónía, Rússland, Svíþjóð, Hvíta-Rússland, Noregur.
3. flokkur: Austurríki, Tékkland, Svartfjallaland, Slóvakía, Litháen, Portúgal, Holland.
4. flokkur: Bosnía og Hersegóvína, Ísrael, Lettland, Sviss, Úkraína, Tyrkland, Finnland.
Finnar komust óvænt í undankeppni EM 2016 | Geta mætt Íslandi
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið

Endurkomusigur í stórskemmtilegum opnunarleik
Enski boltinn

„Ég hélt að við værum komin lengra“
Enski boltinn

„Betra er seint en aldrei“
Enski boltinn



Opnunarleikurinn var stöðvaður vegna kynþáttaníðs
Enski boltinn



Gummi Ben og Hjörvar Hafliða fóru að rífast
Enski boltinn
