Innlent

Dæmdar fyrir líkamsárás

Frá aðalmeðferð málsins.
Frá aðalmeðferð málsins. Vísir/GVA
Fjórar ungar konur hlutu í morgun skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir líkamsárás á hendur stúlku á sautjánda ári inni á og utan við skemmtistaðinn Úrillu Górilluna á Höfða í mars 2013.

Þrjár þeirra voru dæmdar í þriggja mánaða fangelsi og ein í þrjátíu daga fangelsi. Allir dómarnir eru skilorðsbundndir til tveggja ára.

Þar að auki er þeim gert að greiða fórnarlambinu 500 þúsund krónur í miskabætur, auk vaxta og rúmar fimm milljónir í málskostnað.

Fallið var frá ákæru fimmtu konunnar við aðalmeðferð málsins. Þrjár þeirra eru 21 árs en sú fjórða er 19 ára.

Árásin átti sér stað fyrir utan skemmtistaðinn Úrillu Górilluna í Austurstræti þann 28. mars í fyrra. Konurnar fimm, sem eru á aldrinum nítján ára til 21 árs, neituðu allar sök við þingfestingu í málinu í september en ein þeirra viðurkenndi að hafa rifið í hár stúlkunnar og sparkað í fótlegg hennar.

Í ákærunni eru tvær kvennanna sakaðar um að hafa fyrst ráðist á fórnarlambið með því að rífa í hár hennar inni á kvennaklósetti skemmtistaðarins. Ein þeirra tveggja auk hinna þriggja hafi í kjölfarið rifið í hár hennar, sparkað og slegið í höfuð og líkama hennar fyrir utan skemmtistaðinn.

Sjá einnig: Fullt af 95 módelum gerðu alvarlegri hluti.

„Ég var inni á klósetti að pissa og það var verið að berja og sparka á hurðina. Ég fór fram og þar mætti mér stelpa sem sagði að ef ég væri með einhverja stæla yrði ég barin. Ég lenti í átökum við nokkrar stelpur inni á klósettinu. Þær réðust nokkrar á mig og rifu í hárið á mér og voru að sparka í mig,“ sagði stúlkan fyrir dómi lok nóvember.

Hljóðhimna stúlkunnar sprakk í árásinni og bar hún fyrir dómi að hún hefði heyrt lítið í kjölfar árásarinnar. Þá var hún öll marin á líkamanum eftir árásina.

Hún sagðist svo muna eftir því að hafa verið á götunni fyrir utan staðinn og þá hafi verið sparkað og kýlt í hana. Jafnframt bar hún fyrir dómi að hún myndi eftir öllum ákærðu þar úti og að þær hefðu allar ráðist á sig.

Stúlkan mundi eftir andlitum þeirra frá því um kvöldið og lét lögregluna vita af því. Hún hafi síðan komist að því hvaða stelpur þetta væru, fundið þær á Facebook og þannig komist að því hvað þær hétu.

Sjá einnig: Segir þær hafa áreitt sig eftir árásina.

Stúlkan sagði fyrir dómi að hún væri nýbyrjuð hjá sálfræðingi. Hún segir að sér hafi liðið hræðilega eftir árásina en þær ákærðu í málinu þrýstu á hana að draga kæruna til baka.

„Mér leið hræðilega eftir þessa árás og þetta var mikið sjokk. [...] Núna finnst mér ótrúlega óþægilegt að vera ein og hræðist það mikið. Þær hafa komið til mín í vinnuna og sagt mér að falla frá kærunni. Þær hafa áreitt mig töluvert eftir þetta og þetta hefur tekið virkilega á mig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×