Erlent

Stúlkunum snúið til Íslam og giftar

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AP
„Ef þið vissuð ástand dætra ykkar í dag, myndu einhver ykkar deyja úr sorg,“ segir Abubakar Shekau, leiðtogi Boko Haram hryðjuverkasamtakanna í Nígeríu. Samtökin rændu 278 skólastúlkum fyrir hálfu ári en Shekau segir að þeim 218 sem ekki hafa flúið, hafi öllum verið snúið til Íslam og þær séu nú giftar.

Í myndbandi sem Boko Haram gaf út í gærkvöldi neitar Shekau einnig að samið hafi verið um vopnahlé á milli samtakanna og yfirvalda í Nígeríu.

„Þið þurfið að skilja að við hlýðum aðeins Allah, við fetum fótspor spámannsins. Við vonumst til að deyja á þessari leið. Okkar markmið er garður eilífrar hamingju.“

Þar að auki hótaði hann þýskum gísli sem samtökin eru með í haldi.

„Vitið þið ekki að við erum enn með þýska gíslinn, sem er alltaf grátandi.“ Þá hótaði hann að höggva hann með sveðjum eða skjóta hann.

Yfirvöld í Nígeríu hafa margsinnis sagst hafa fellt Shekau og að sá sem geri myndböndin líti einungis út fyrir að vera hann. Samkvæmt AP fréttaveitunni hafa yfirvöld í Bandaríkjunum þó ekki dregið til baka sjö milljóna dala verðlaun fyrir upplýsingar sem leita til handtöku hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×