Erlent

Sautján mótmælendur handteknir í St. Louis

Bjarki Ármannsson skrifar
Mótmælin héldu áfram í St. Louis í dag.
Mótmælin héldu áfram í St. Louis í dag. Vísir/AFP
Lögregla í Bandaríkjunum handtók að minnsta kosti sautján manns í borginni St. Louis um helgina sem tóku þátt í skipulögðum mótmælum vegna dráps lögreglu á táningnum Michael Brown í ágúst síðastliðnum. Nú standa yfir fjögurra daga mótmæli sem bera heitið „Ferguson-október“ eftir bænum Ferguson, nágrannabæ St. Louis í Missouri-ríki, þar sem hinn átján ára Brown var skotinn.

BBC greinir frá. Þúsundir manna hafa tekið þátt í ýmsum göngum og mótmælasetum en hinir handteknu höfðu komið saman fyrir framan bensínstöð og neitað að yfirgefa svæðið. Lögregla beitti piparúða við handtökuna, en að sögn Sam Dotson lögreglustjóra reyndu mótmælendurnir að brjótast inn í verslun stöðvarinnar og grýttu steinum í lögreglu.

Hvítur lögreglumaður skaut Brown, sem var dökkur á hörund, til bana úti á götu í Ferguson þann 9. ágúst. Brown var óvopnaður. Í kjölfarið hófust miklar óeirðir í bænum og kom fólk saman víðar í Bandaríkjunum til að mótmæla lögregluofbeldi og þeirri mismunun sem þeldökkir upplifa daglega víða í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Ku Klux Klan á leið til Ferguson

Liðsmenn samtakanna hyggjast „verja verslanir í eigu hvítra“ í þeim mótmælum sem nú hafa staðið yfir síðustu daga.

Þjóðvarðliðið dregið frá Ferguson

Ríkisstjóri Missouri-ríkis í Bandaríkjunum hefur fyrirskipað að þjóðvarðliðið verði dregið frá bænum Ferguson þar sem dregið hefur úr mótmælum í bænum í sem hófust í kjölfar þess að lögreglumenn skutu 18 ára pilt til bana.

Reiðin kraumar enn í Ferguson

Lögreglumenn í bænum Ferguson í Missouri beittu táragasi enn á ný gegn mótmælendum í bænum í nótt en þar hefur allt verið á suðupunkti frá því óvopnaður unglingspiltur var skotinn til bana af lögreglumanni.

Ólga og óeirðir í Ferguson

Mikil ólga hefur verið í bænum Ferguson í Missouri allt frá því lögreglumaður skaut átján ára pilt um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×