Innlent

Bjóða hefði átt út tollkvóta á smjöri

Heimir Már Pétursson skrifar
Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir að aldrei hefði átt að leyfa Mjólkursamsölunni að flytja inn 90 tonn af smjöri fyrir jólin í fyrra. Þegar í ljós kom að skortur var á smjöri hefði átt að bjóða út tollkvóta til að stuðla að samkeppni með þessa vöru.

Mjólkursamsalan flutti inn um 90 tonn af smjöri frá Írlandi í fyrra þegar í ljós kom að hún stæði frami fyrir skorti á smjöri og rjóma fyrir jólin. Nú eru rúm 30 tonn eftir af þessu smjöri í frystgeymslu norður á Akureyri og segir Mjólkursamsalan að það fari til fóðurgerðar fyrir kálfa þar sem það sé ekki lengur hæft til manneldis, en hin 60 tonnin voru aðallega notuð til ostagerðar.

„Þetta vekur náttúrlega enn einu sinni athygli á fáránleika þessa máls frá A til Ö. Við náttúrlega gagnrýndum á sínum tíma alla málsmeðferð ráðgjafanefndar ráðuneytisins í inn- og útflutningi landbúnaðarvara á málsmeðferðinni,“ segir Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

Mjólkursamsalan hafi fyrst sótt um tollkvóta þegar skortur á smjöri blasti við síðast liðið haust en síðan dregið þá umsókn til baka. Það hefði átt að hundsa afturköllun MS á beiðni um tollkvóta.

„Og bjóða tollkvótana út. Með öðrum orðum, úr því þessi staða var komin upp að Mjólkursamsalan gat ekki framleitt upp í innanlandsþarfir að hleypa öðrum að þessu borði. Virkja einhverja samkeppni á þessum markaði. Það var ekki gert,“ segir Andrés.

Eftirspurnin eftir mjólkurvörum hefur aukist mikið á undanförnum árum og innlend framleiðsla hefur varla undan þótt framleiðslan hafi verið aukin. Andrés segir aukninguna tugi milljóna lítra á örfáuum árum.

„Þetta endurspeglast líka í því sem við sjáum á nautakjötsmarkaði. Það er nautakjötsskortur í landinu. Ástæðan er einfaldlega sú að bændur sjá sér meiri hag í því að nýta gripina í það að framleiða mjólk en að framleiða nautakjöt. Það er ein birtingarmynd þessarar stöðu,“ segir Andrés.

Ein rökin fyrir innflutningshindrunum á landbúnaðarvörum hafa verið hollustuhættir en írska smjörið virðist ekki hafa reynst neytendum hættulegt.

Þannig að í ykkar huga ætti að vera óhætt að hafa samkeppni á þessum markaði?

„Að sjálfsögðu. Eins og á öllum mörkuðum. Við viljum frjálsa samkeppni á öllum mörkuðum, sama hvaða nafni markaðurinn heitir,“ segir Andrés Magnússon.


Tengdar fréttir

Írska smjörfjallið fer allt í kálfafóður

Í frystigeymslu á Akureyri eru 32 tonn af írsku smjöri sem flutt var inn fyrir jólin í fyrra. Smjörið mun fljótlega fara í kálfafóður fyrir kúabændur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×