Körfubolti

Þetta gerðist hjá Jóni Arnóri fyrir átta árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Vísir/Daníel
Jón Arnór Stefánsson, besti leikmaður íslenska körfuboltaliðsins, verður eins og allir vita fjarri góðu gamnni þegar íslenska liðið mætir Bretum í Laugardalshöllinni á sunnudagskvöldið.

Jón Arnór er búin að spila 22 leiki Íslands í Evrópukeppni frá 2008 til 2013 og skoraði í þeim 379 stig eða 17,2 stig að meðaltali í leik. Leikurinn við Bretland á sunnudaginn verður því fyrsti leikur íslenska landsliðsins í Evrópukeppni sem Jón Arnór missir af í sjö ár.

Jón Arnór er að leita að nýjum samningi og má ekki við því að meiðast. Hann er að verða 32 ára gamall og telur að meiðsli í þessum landsleikjum gæti kostað hann síðasta góða samninginn.

Jón Arnór er brenndur af því að meiðast með íslenska landsliðinu en það gerðist í leik á móti Lúxemborg í Keflavík fyrir tæpum átta árum.

Ljósmyndarinn Gunnar Freyr Steinsson náði því á mynd þegar Jón Arnór snéri illa upp á ökklann í byrjun leiks en Jón Arnór var þá nýbúinn að semja við spænska liðið Valencia. Hann brotnaði ekki en tognaði mjög illa. Það er hægt að sjá þessa mögnuðu mynd hér fyrir neðan.

Jón Arnór var lengi að ná sér góðum af meiðslunum og fór frá Valencia á miðju tímabili. Jón samdi við ítalska liðið Lottomatica Roma og snéri ekki aftur til Spánar fyrr en þremur árum síðar.

Jón Arnór var ekki með landsliðinu haustið 2007 en hefur síðan gefið kost á sér í öll stóru verkefni liðsins þar til nú. Jón Arnór var með samning við CB Granada frá 2009 til 2011 og lék síðustu þrjú tímabil með CAI Zaragoza.

Jón Arnór meiðist hér illa á ökkla í landsleik 13. september 2006.Mynd/Myndasíða KKÍ/Gunnar Freyr Steinsson

Tengdar fréttir

Jón Arnór: Rétt ákvörðun þó að hún sé mjög erfið

Jón Arnór Stefánsson verður ekki með íslenska landsliðinu í undankeppni EM sem hefst með heimaleik við Bretland um næstu helgi og Valtýr Björn Valtýsson ræddi við kappann í kvöldfréttum Stöðvar 2 og fékk að vita af hverju besti leikmaður landsliðsins getur ekki spilað þessa leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×