Körfubolti

Jón Arnór verður ekki með Íslandi í undankeppninni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Arnór Stefánsson á æfingu landsliðsins í dag.
Jón Arnór Stefánsson á æfingu landsliðsins í dag. vísir/daníel
Jón Arnór Stefánsson, besti körfuboltamaður Íslands, verður ekki með landsliðinu í undankeppni EM 2015 eins og talið var. Þetta var tilkynnt á æfingu landsliðsins í Laugardalshöll í dag.

Jón Arnór er samningslaus og koma tryggingamál í veg fyrir að hann geti spilað með landsliðinu gegn Bretlandi og Bosníu í undankeppninni.

Þar sem hann er samningslaus er ekki hægt að tryggja hann, en ef Jón væri búinn að skrifa undir við eitthvað lið væri hægt að tryggja þann samning og þ.a.l. gæti hann spilað með Íslandi.

Samningur Jóns hjá spænska úrvalsdeildarliðinu CAI Zaragoza, sem hann hefur spilað með undanfarin þrjú ár rann út eftir síðasta tímabil.

Ljóst er að þetta er mikið áfall fyrir íslenska liðið sem gerði sér vonir um sæti á EM, en tveir sigrar á löskuðu liði Breta myndu mögulega duga íslenska liðinu á stórmót í fyrsta skipti.

Jón Arnór hefur eins og allir vita verið fremsti körfuboltamaður þjóðarinnar um árabil, en í undankeppninnni 2012 var hann langbesti maður liðsins; stiga- og stoðsendingahæstur.

Jón Arnór tók þessu ákvörðun í samráði við þjálfara liðsins sem og stjórn KKÍ.

Viðtal við Jón Arnór birtist á Vísi síðar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×