Erlent

Moska, sýnagóga og kirkja undir sama þaki

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Haldin var hönnunarkeppni og bar þessi hönnun sigur úr býtum.
Haldin var hönnunarkeppni og bar þessi hönnun sigur úr býtum. Mynd/BBC
 Yfirvöld í borginni Berlín telja sig vera að skrá sig á spjöld trúarsögu heimsins þar sem að til stendur að byggja bænahús sem sameinar trú múslima, gyðinga og kristinna manna. Húsið sem er kallað The House of One upp á ensku eða Hús þess eina verður sýnagóga, kirkja og moska undir einu þaki.

Keppni um að teikna húsið hefur verið haldin og valinn hefur verið sigurvegari. Húsið verður múrsteinshús með háum, kassalaga turni í miðjunni. Verða þrjár einingar sem hver mun hýsa eina trú. Til stendur að byggja þetta hús sem sameinar hinar ólíku trúarstefnur í hjarta Berlínar á stað sem kallast Petriplatz. Staðsetningin er táknræn segir rabbíninn Tovia Ben Chorin. „Frá mínum sjónarhóli, sjónarhóli gyðings, er borgin sem áður var vettvangur þjáningar gyðinga nú borg þar sem byggð verður miðstöð af þremur eingyðistrúm sem hafa mótað menningu Evrópu,“ sagði hann í samtali við BBC.

Hann segir hópinn vinna vel saman. Kadir Sanci, íslamskur bænaprestur, sem tekur þátt í verkefninu segir húsið vera merki til heimsins um að flestir múslimar séu friðsamir og ekki ofbeldisfullir. Einnig segir hann staðinn verða vettvangur þar sem ólíkir menningarheimar geti lært af hver öðrum.

Sérhvert af rýmunum þremur í húsinu verður af sömu stærð en af mismunandi lögun.

Nánar má lesa um húsið á vef BBC



Sameining þriggja ólíkra menningarheima.Mynd/BBC
.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×