Handbolti

Einar: Þessi kvörtun kemur okkur í opna skjöldu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ.
Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ. Vísir/Vilhelm
„Þú ert að segja mér fréttir,“ sagði EinarÞorvarðarson, framkvæmdastjóri HSí, við Vísi aðspurður um kvartanir Bosníumanna vegna þjónustu HSÍ á meðan dvöl liðsins stóð um helgina.

Bosnía mætti til Íslands til að spila seinni umspilssleik liðanna í undankeppni HM 2015 en jafntefli í Laugardalshöll tryggði liðinu farseðilinn til Katar og skildi strákana okkar eftir í sárum.

Ásamt því að fagna sigrinum hafa Bosníumenn einnig kvartað í fjölmiðlum í heimalandinu yfir aðbúnaðinum á Íslandi. „Allt frá gistiaðstöðu að matnum sem okkur stóð til boða. Það var alls ekki nógu gott,“ sagði þjálfarinn DraganMarkovic við sport.be.

„Við fengum enga kvörtun um mat eða neitt slíkt,“ sagði Einar um málið við Vísi. Ein kvörtun barst snemma sem var afgreidd, að sögn framkvæmdastjórans.

„Það var einhver smá kvörtun þegar þeir komu um að starfsliðið væri ekki nógu nálægt leikmönnunum. Þetta var spurning um að labba einhverja hundrað metra. Annars kemur þetta okkur algjörlega í opna skjöldu,“ sagði Einar.

Einar ítrekaði að Bosníumenn hefðu tekið mjög vel á móti Íslendingum. Ennfremur sagði framkvæmdastjórinn að Bosníumenn hefðu verið á hóteli sem HSÍ hefur oft notað áður og aldrei verið kvartað yfir.

„Við heyrðum í þeim eftir á og það var allt í þessu fínasta lagi. Ég man ekki eftir svona kvörtunum og við höfum notað þetta hótel oft. Við reynum að uppfylla allar kröfur og ekki fengið nein bréf um að eitthvað sé í ólagi eða þvíumlíkt,“ sagði Einar Þorvarðarson.

Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×