Innlent

Líkur á saurmengun í Þingvallavatni sterkar

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Sterkar líkur eru á að saurgerlar á borð við E.coli séu í Þingvallavatni. Bág staða fráveitumála í þjóðgarðinum skapar mikla hættu þegar líffræðilegur fjölbreytileiki vatnsins er annars vegar..

Þingvallavatn er einstakt, grunnvatnsháð vistkerfi þar sem örverur þrífast við öfgakenndar aðstæður og breytilegar. Kjartan Guðmundson, líffræðingur og meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði, rýnir í örveruflóru vatnsins í meistaraprófsritgerð sinni. Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar og var studd af Matís. Niðurstöður sýnatökunnar varpa ljósi á fjölbreytt örverulíf í vatninu en einnig möguleg áhrif mannabyggðar.

Saurgerlar fundust í sýnum sem tekin voru í Þingvallavatni, nánar til tekið E.coli-baktería. Þessi saurmengun fannst í fimm sýnum sem tekin voru í grennd við mannabústaði. Brýn þörf er á að framkvæma frekari rannsóknir í þessum efnum.

„Þingvallavatn er gríðarstórt og því erfitt að átta sig á hvaðan saurmengunin kemur. Staðreyndin sem blasir við er að hér í sveitinni eru 600 bústaðir sem uppfylla ekki kröfur um tveggja þrepa hreinsun á skólpi. Það sem slíkt setur spurningarmerki við heilbrigði drykkjarvatns á svæðinu.

Þörf er á ítarlegri rannsóknum á útbreiðslu saurgerla í Þingvallavatni. Þar á meðal þarf að varpa frekara ljósi á hvaðan þessar bakteríur berast ásamt því að skima fyrir bendiörverum á borð við Nóróvírus í vatninu og rýna í áhrif þeirra á örveruflóru Þingvallavatns.

Í lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum segir: Innan þjóðgarðsins er óheimilt að gera nokkuð það sem getur spillt eða mengað vatn þar, bæði vatn á yfirborði og grunnvatn.

Rúmlega fimmtán þúsund kafarar, hvaðanæva að úr heiminum, köfuðu í Silfru á síðasta ári. Það sem vekur sérstaka athygli er að það er engin krafa eða reglugerð sem skipar fólki að hreinsa kafarabúnað sem fluttur er til landsins. Slíkar reglur eiga við um innflutt reiðtygi og veiðibúnað.

Þannig gæti kafari kafað í Viktoríuvatni í Afríku og síðan kafað í Silfru án þess að ganga úr skugga um að engar framandi lífverur séu með í för.

Þriðjungur þeirra sem svömluðu í Silfru á síðasta ári voru í köfun, hinir í snorkli.

Vart er hægt að ímynda sér fallegri köfunarstað en Silfru en þessi mikla ásókn hefur þegar sett sinn svip á umhverfið, enn sem komið er er óljóst hver áhrifin eru á sjálft lífríkið í þessu einstaka stöðuvatni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×