Innlent

Bjarni landaði vænni hrygnu á rauðan Francis

Bjarni með grálúsuga hrygnuna.
Bjarni með grálúsuga hrygnuna. Vísir/Daníel
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra landaði vænni hrygnu í Brotinu í Norðurá í morgun. Hrygnan, sem mældist 78cm grálúsug og spegilgljáandi tók rauðan Francis. Nokkrum mínútum áður hafði Sigurður Sigfússon, bróðir Einars Sigfússonar umsjónarmanns árinnar, landað fyrsta laxi sumarsins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, þáðu boð um að opna laxveiðitímabilið í Norðurá nú í morgun. Þeir munu staldra stutt við.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Að sögn Sigurðar Más Jónssonar, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, er hér um opnunarathöfn að ræða, ekki boðsferð. Rétt fyrir klukkan átta hættu Sigmundur og Bjarni veiðum. Sigmundur var á leið að hitta nýjan meirihluta í Borgarbyggð og Bjarni verður viðstaddur ráðstefnu í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×