Innlent

Veiðiþjófar ítrekað staðnir að verki í Efra-Sogi

Svavar Hávarðsson skrifar
Fréttablaðið/Vilhelm
Starfsmenn Landsvirkjunar hafa ítrekað staðið veiðiþjófa að verki við Efra-Sog, en í Þingvallavatni og Efra-Sogi hefur um árabil staðið yfir fiskræktarátak. Engar upplýsingar liggja fyrir um umfang veiðiþjófnaðarins en upplýsingar gefa til kynna að hann hafi viðgengist lengi.

Þetta kemur fram í skriflegu svari iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um rannsóknir og vöktunarverkefni sem varða urriða í Efra-Sogi.

Eins og kunnugt er rann ekkert vatn um náttúrulegt frárennsli Þingvallavatns um áratugaskeið eftir að Steingrímsstöð við Efra-Sog var byggð á árunum 1958–60. Efra-Sog er náttúrulegt útfall Þingvallavatns til Úlfljótsvatns. Stíflan sér til þess að vatn sem áður streymdi úr Þingvallavatni um þröngan farveg Efra-Sogs er nú að mestu leitt gegnum jarðgöng til rafmagnsframleiðslu í Steingrímsstöð á bökkum Úlfljótsvatns.

Á árunum 1994–1996 var unnið að endurnýjun véla Steingrímsstöðvar. Á meðan á því verki stóð þurfti að veita vatni um árlokur niður farveg Efra-Sogs. Eftir að því verki lauk var ákveðið að halda nokkru vatnsrennsli áfram í árfarveginum og hefur það viðhaldist síðan. Líklegt er talið að núverandi rennsli um farveginn nemi um 3–5 prósentum af náttúrlegu rennsli um Efra-Sog.

Össur spyr meðal annars um hvort, og hversu mikil, brögð séu talin að ólöglegum veiðum á urriða í Efra-Sogi, og um eftirlit með veiðunum.

„Bæði starfsmenn Landsvirkjunar og Jóhannes Sturlaugsson hjá Laxfiskum hafa ítrekað rekist á veiðiþjófa eða ummerki um þá og stuggað við þeim. Ekkert skipulagt veiðieftirlit er viðhaft, starfsmenn Sogsstöðva hafa þó reynt að fylgjast með ferðum grunaðra en það eftirlit hefur verið minna en fyrrum eftir að fækkaði í föstu starfsliði,“ segir í svari ráðuneytisins.

Það byggir á umsögn Landsvirkjunar, sem að hluta til er byggt á sérfræðiálitum Veiðimálastofnunar og fyrirtækisins Laxfiska ehf., en eigandi þess, Jóhannes Sturlaugsson, hefur stundað rannsóknir á urriðanum í Þingvallavatni um árabil. Eins kemur fram að til að mæta þörfinni á eftirliti er búið að koma fyrir öryggismyndavél sem fylgist með umferð við Efra-Sog. Þá er búið að setja upp skilti sem upplýsa um að svæðið sé vaktað, og er vonast „til að þetta hafi einnig ­nokkurn fælingarmátt“, segir í svarinu.

Í svarinu kemur fram að frá árinu 2006 hafa fundist urriðaseiði í uppeldi í Efra-Sogi. Árin 2007 til 2010 merktu Laxfiskar 48 urriða á riðunum á Efra-Sogi sem voru á bilinu 57 til 91 sentímetra langir og 2,3 til 9,0 kíló að þyngd. Samhliða veiði á þeim fiski til merkinga var reynt að meta fjölda þeirra urriða á riðunum sem ekki náðust til merkinga þannig að gróflega mætti átta sig á fjölda fiskanna sem hrygndu hverju sinni í Efra-Sogi. Þetta grófa mat samhliða merkingum 2007–2010 sýndi að mesti fjöldi hrygningarfiska á riðunum í Efra-Sogi þessi ár var nálægt fjórir tugir fiska árið 2008. Áður hafði lítið fundist við athugun 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×