Innlent

Reiði á Dalvík eftir að gæsin Goggur var lituð blá

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Goggur er er meðal annars blár á augnlokunum og goggnum.
Goggur er er meðal annars blár á augnlokunum og goggnum.
Íbúar á Dalvík eru reiðir eftir að gæsin Goggur var lituð blá í friðlandi Svarfdæla á föstudagskvöld. Goggur er hvekktur og hefur myndum af honum verið dreift á samfélagsmiðlunum en eigendur gæsarinnar vita ekki hvað gerðist eða hverjir voru að verki.

„Strákurinn minn fann egg í fyrrasumar,“ segir Ólafur Hauksson húsasmiður í samtali við Vísi. „Hann kom með það heim og sneri því í tvo sólarhringa. Þá kom út gæsaungi sem var hér í allt fyrrasumar á lóðinni okkar.“

Í vetur var Goggi komið fyrir í nálægri sveit en í vikunni var hann sóttur á ný og fór fjölskyldan með hann í friðland Svarfdæla.

„Það er bannað að skjóta þar og þarna eiga fuglar og önnur dýr að geta verið í sátt og samlyndi við þá sem þar eru. Hún er ófleyg því það var búið að stýfa af henni flugfjaðrirnar í sveitinni og við vorum að reyna að fylgjast með henni þarna í friðlandinu. Í gærdag fréttum við svo af blárri gæs. Þá fundum við hana aftur og þá var búið að spreyja hana.“

Best að vera rólegur

Ólafur segir gæsina hvekkta en hún er meðal annars blá á augnlokunum og goggnum.

„Það er búið að reyna að þrífa hana vel. Þetta var mjög gæf gæs og það var nóg að kalla á hana. En hún er mjög hvekkt núna. Hún liggur hérna á pallinum.“

Ólafur segist ekki vita hverjir voru að verki en hann ætlar að hafa samband við náttúrufræðing á morgun og reyna að finna eitthvað til þess að hreinsa Gogg, ef það er þá hægt.

„Nei ég veit ekki hvað gerðist. Ég get ekki fullyrt um það sem ég hef heyrt úti í bæ. En þetta voru engin börn held ég. Maður skilur þetta ekki, það er það eina sem ég get sagt. Þetta er náttúrulega bara ömurlegt. Maður veit ekki hvað kom fyrir eða hvað var í gangi. Fólk er búið að vera að deila þessu á Facebook og tilfinningarnar hjá fólki eru svakalegar. En það er víst langbest að vera rólegur í þessu þangað til það kemur í ljós hvað gerðist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×