Margrét tilkynnti í pistli á Facebook í gærkvöldi að hún gæti ekki setið á sér og yrði að greina frá því sem gerðist á Kvennakvöldi Breiðabliks á laugardagskvöldið.
„Er búin að vera vitni að því tvö ár í röð að miðaldra konur áreiti unga drengi kynferðislega,“ skrifaði Margrét Júlía.
Hún segir að þar hafi konur farið fram á að drengirnir sem voru að þjóna færu úr að ofan. Um var að ræða knattspyrnumenn Kópavogsliðsins sem Margrét telur að hafi verið einhvers staðar á milli 18 og 20 ára.

„Ég hefði getað grátið af skömm fyrir kynsystrum mínum og vegna þessarar ömurlegu stöðu sem drengirnir voru settir í.“
Margrét fór tvisvar sinnum fram á að þetta yrði stöðvað. Henni væri misboðið, þetta væri niðurlægjandi, dónalegt og kynferðislegt áreiti. Hún ræddi einnig við drengina og segir þá ekki hafa liðið vel yfir þessu.
„Hvað myndu konur segja ef svona hátterni væri á karlakvöldum?“
„Það er ömurlegt þegar maður upplifir svona. Konur sem berjast fyrir jafnrétti kynja og vernd kvenna gagnvart ofbeldi eiga ekki að leika þennan leik,“ segir Margrét.
Uppfært klukkan 10:00
Breiðablik sendi tölvupósts til Vísis nú fyrir stundu vegna málsins
V/fréttar um kvennakvöld Breiðabliks
Það er afar miður að reynsla þessa gests á samkomu á vegum deildarinnar hafi verið með þeim hætti sem hún lýsir.
Knattspyrnudeild Breiðabliks vill hafa í heiðri siðreglur félagsins og jafnréttisstefnu knattspyrnudeildarinnar. Hún mun kynna reglurnar fyrir aðstandendum samkomunnar og brýna fyrir þeim að gera það sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að upplifun gesta verði með þessum hætti.
Knattspyrnudeild Breiðabliks