Innlent

Ný stjórn Félags frjálslyndra jafnaðarmanna

Stefán Árni Pálsson skrifar
Eva H. Baldursdóttir var kjörin formaður.
Eva H. Baldursdóttir var kjörin formaður. mynd/aðsend
Á aðalfundi Félags frjálslyndra jafnaðarmanna sem haldinn var í gær var kjörin ný stjórn félagsins. Eva H. Baldursdóttir lögfræðingur og varaborgarfulltrúi var kjörin formaður.

Þá var Vilhjálmur Þorsteinsson fjárfestir kosinn gjaldkeri og Arnar Guðmundsson verkefnastjóri kosinn ritari. Aðrir stjórnarmeðlimir eru Kristín Soffía Jónsdóttir B.S í umhverfisverkfræði og varaborgarfulltrúi, Haukur Hólmsteinsson heimspekingur og frumkvöðull, Baldvin Jónsson viðskiptafræðingur og Dagbjört Hákonardóttir lögfræðingur.

Katrín Júlíusdóttir var gestur fundarins og ræddi hún um stöðu skuldamála í þinginu.

Félag frjálslyndra jafnaðarmanna var endurreist árið 2011 en fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu að frá endurreisn hafi félagið vaxið og dafnað og eru félagar nú liðlega 1000.

Það hafi upphaflega stofnað árið 1986 þegar Bandalag jafnaðarmanna gekk til liðs við Alþýðuflokkinn. Félagið á aðild að Samfylkingunni, en öllum er frjálst að vera á póstlista þess óháð flokksaðild.

Félagið vill leggja tvíþætta áherslu á annars vegar jöfnuð, velferð og lífsgæði og hins vegar á verðmætasköpun byggða á öflugu atvinnulífi, athafnafrelsi og alþjóðaviðskiptum. Ljóst er að miðað við stöðuna í þjóðfélagsmálum eiga áherslur félagsins brýnt erindi við fólkið í landinu.

Félagið hefur einkum sett á oddinn atvinnu- og efnahagsmál  í málefnastarfi sínu en í stofnskrá félagsins er lögð áhersla á að efla verðmætasköpun, nýsköpun og fjárfestingar með hvetjandi rekstrarumhverfi, skýrum og einföldum lagaramma, stöðugleika, öflugu menntakerfi, fríverslun og athafnafrelsi sem helst í hendur við samfélagslega ábyrgð og sjálfbæra þróun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×