Innlent

Kennarar vilja raunhæf svör frá ríkisstjórn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. visir/gva
Félag framhaldsskólakennara og Félag stjórnenda í framhaldsskólum krefst þess að laun félagsmanna verði samanburðarhæf við laun viðmiðunarstétta. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á baráttufundi framhaldsskólakennara sem haldinn var í Framheimilinu í dag.

Áætlað er að um fimm hundruð kennarar og stjórnendur í framhaldsskólum hafi setið á fundinn. Fundurinn var sendur út beint og frá honum sýnt hér á Vísi. Útsendingin gaf kennurum um allt land kost á að fylgjast með því sem framundan fór.

Þá krafðist fundurinn að ríkisstjórn Íslands gerði raunhæfar ráðstafanir til að leysa kjaradeilu framhaldsskólakennara og ríkisins. Þriðja vika verkfalls hófst í dag.

Hér að neðan má sjá ályktun fundarins í heild sinni.

Ályktun samþykkt á baráttufundi Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum 31. mars 2014

Baráttufundur Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum, haldinn í Framheimilinu 31. mars 2014. kl. 13.00, krefst þess að ríkisstjórn Íslands geri raunhæfar ráðstafanir til að leysa kjaradeilu framhaldsskólakennara og ríkisins.

Fundurinn krefst þess að laun félagsmanna verði samanburðarhæf við laun viðmiðunarstétta. Tryggt verði að launaþróun verði sú hina sama og hjá viðmiðunarhópum og að ríkið skuldbindi sig til að tryggja nægilegt fé til reksturs framhaldsskólanna svo sómi sé að.

Fundurinn skorar á ráðherra mennta- og fjármála að styðja við menntun og skólastarf í landinu með því að beita sér fyrir því, að samninganefnd ríkisins fái nú þegar auknar heimildir til að semja við samninganefndir Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum.

Baráttufundur Félags framhaldsskólakennara og félags stjórnenda í framhaldskólum lýsir fullum stuðningi við samninganefndir félaganna í yfirstandandi kjaraviðræðum við ríkið. Mikilvægt er að nú náist fram eðlilegar og réttlátar leiðréttingar á kjörum framhaldsskólakennara. Ennfremur kallar fundurinn eftir því að stjórnvöld sýni vilja í verki til að leysa kjaradeiluna strax svo skólastarf skaðist ekki frekar en orðið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×