Lífið

Nýstárlegt og hressandi jóga

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Tómas Oddur Eiríksson jógakennari blandar saman jóga, dansi og hugleiðslu.
Tómas Oddur Eiríksson jógakennari blandar saman jóga, dansi og hugleiðslu. Mynd/Einkasafn
„Ég var að kenna jógatíma á laugardögum og byrjaði þá á að láta fólk hrista úr sér spennuna í lok tímans og út frá því fékk ég hugmyndina að Yoga Moves-tímunum,“ segir hinn 25 ára gamli jógakennari Tómas Oddur Eiríksson.

Hann kennir nýstárlegt jóga á fimmtudagskvöldum sem kallast Yoga Moves en þar blandar hann saman jóga, dansi og hugleiðslu í einum tíma. „Tímarnir byrja á hefðbundnu jóga en svo fer tónlistin á fullt og við dönsum og fólk fær að sleppa sér, svo enda tímarnir á hugleiðslu,“ útskýrir Tómas Oddur.

Í hverjum Yoga Moves-tíma er plötusnúður sem sér um að koma fólki í stuð þegar sá hluti tímans rennur upp. „Ég þekki marga plötusnúða þannig að ég er með mismunandi plötusnúða í tímum hjá mér. Hver tími er frábrugðinn öðrum og bý ég til lagalista fyrir hvern tíma,“ segir Tómas Oddur en hann fær ennig með sér gestakennara í tímana.

Góð stemning er í tímunumMynd/Einkasafn
Hann er menntaður jógakennari og lærði meðal annars hjá Ingibjörgu Stefáns frá Yoga Shala og útskrifaðist hann árið 2012. „Ég hef verið að kenna hjá Yoga Shala í tvö ár, svo kenni ég einnig í Íslenska dansflokknum og í Kramhúsinu,“ bætir Tómas Oddur við.

Hann segir Yoga Moves virka vel á Íslandi því hér sé mikil andleg vakning í gangi. „Þetta er að virka vel því fólk fær hjá okkur tækifæri til að sleppa sér og ekki í glasi. Það er svo frelsandi að dansa í góðu andrúmslofti.“ Einnig er boðið upp á Yoga Moves fyrir staka hópa, líkt og vinnuhópa eða hópefli.

Hér má kynna sér Yoga Moves nánar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.