Innlent

Pokasjóður afhenti Landspítalanum 30 milljóna tæki

Samúel Karl Ólason skrifar
Bjarni Finnson, formaður stjórnar Pokasjóðs, prófar nýja tækið.
Bjarni Finnson, formaður stjórnar Pokasjóðs, prófar nýja tækið. Mynd/Snorri Björnsson
Pokasjóður afhenti Landspítalanum 30 milljón króna lungnarannsóknartæki í dag. Þau leysa af hólmi eldri tæki sem notuð hafa verið á lungnarannsóknarstofu spítalans í 14 ár og eru orðin úrelt.

Í tilkynningu frá sjóðnum segir að þetta sé önnur gjöf til sjúkrastofnunar og sé það í samræmi við breyttar áherslur Pokasjóðs. Tímabundið hefur verið dregið úr hefðbundnum úthlutunum en fjármunir þess í stað lagðir til tækjakaupa fyrir sjúkrastofnanir landsins.

„Tækjagjöfin gerir Landspítalanum kleift að bæta svo um munar þjónustu við lungnasjúklinga og er búnaðurinn sá fullkomnasti á landinu. Nýju tækin gera mögulegt að vinna við mælingar á fleiri starfstöðvum samtímis og auka þannig  afkastagetu lungnarannsóknarstofunnar. Með nýju tækjunum má framkvæma allar helstu öndunarmælingar auk þess sem gera má áreynslupróf á þrekhjóli og á göngubretti,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir einnig að gera megi ráð fyrir að lungnasjúkdómar séu enn talsvert vangreindir hér á landi. „Talið er að 16-18 þúsund manns hafi langvinna lungnateppu en aðeins hluti þeirra hefur fengið greiningu. Öndunarmæling er forsenda fyrir greiningu sjúkdómsins og mikilvæg fyrir snemmgreiningu og stigun sjúkdómsins og vali á lyfjameðferð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×