Innlent

Telja ríkislögreglustjóra brjóta á rétti flugmanna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sindri Sveinsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna.
Sindri Sveinsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna. vísir/aðsend
Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) mótmæla því að ríkislögreglustjóri fái auknar heimildir til að afla persónuupplýsinga við bakgrunnsathuganir á flugáhöfnum í umsögn um frumvarp innanríkisráðherra.

Bakgrunnsathugarnirnar fela meðal annars í sér að ríkislögreglustjóri fái aukna heimild til þess að skoða alla þá sem fara inn á haftasvæði flugverndar. Þá veitir það ríkislögreglustjóra heimild til þess að skoða fjárhagsstöðufólks, upplýsingar um hjúskaparstöðu og maka og fleira sem FÍA telur brjóta á stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga hvað varðar friðhelgi einkalífs og atvinnuréttarákvæði.

„Rökin sem gefin eru er að ríkislögreglustjóri þurfi á þessum valdheimildum að halda til þess að geta gert þessa bakgrunnsskoðun sem gerð hefur verið með öðrum hætti hingað til. Hann segist þurfa þessar heimildir til þess að framfylgja evrópustöðlum,“ segir Sindri Sveinsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra atvinnuflugmanna, í viðtali við Bítið á Bylgjunni.

Aðspurður segir Sindri þetta ekki vera svona í öðrum löndum.

Fylla þarf út ákveðin eyðublöð þegar gerðar eru bakgrunnsathuganir sem þessar.

„Árið 2012 breytti ríkislögreglustjóri eyðublaðinu og fór að afla meiri upplýsinga en við töldum eðlilegt á þeim tíma. Nokkur stéttarfélög, þ.m.t FÍA kærðum þetta til Persónuverndar.“

Persónuvernd úrskurðaði í fyrra að ríkislögreglustjóri hefði ekki þessar valdheimildir og að þetta bryti ákvæði um mannréttindalög um friðhelgi einkalífsins og rétt til atvinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×