Innlent

Eygló flutti ræðu á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna

Stefán Árni Pálsson skrifar
Eygló lagði í ræðunni áherslu á að aukið kynjajafnrétti væri lykillinn að nýjum sjálfbærum þróunarmarkmiðum.
Eygló lagði í ræðunni áherslu á að aukið kynjajafnrétti væri lykillinn að nýjum sjálfbærum þróunarmarkmiðum. mynd/aðsend
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, flutti í gær ræðu Íslands í almennum umræðum á 58. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Árangur og áskoranir sem varða framkvæmd þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um aukið kynjajafnrétti og bætta stöðu kvenna er megin umræðuefni fundar kvennanefndarinnar í ár. 

Sameinuðu þjóðirnar hafa frá árinu 2000 unnið að framkvæmd átta þúsaldarmarkmiða sem eru raunhæf og tímasett markmið ætluð til hjálpar í baráttunni gegn fátækt, hungri, sjúkdómum, ólæsi og mismunun gegn konum. 

Eygló lagði í ræðunni áherslu á að aukið kynjajafnrétti væri lykillinn að nýjum sjálfbærum þróunarmarkmiðum sem munu taka við af þúsaldarmarkmiðunum og ítrekaði að Ísland og Norðurlöndin vilji að sérstakt markmið verði sett um réttindi og valdeflingu kvenna með áherslu á efnahagsleg og pólitísk réttindi, aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi og kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindi.

Auk þess sé æskilegt að kynjasjónarmið verði samþætt öðrum markmiðum Í nýjum sjálfbærum þróunarmarkmiðum sem munu taka við af þúsaldarmarkmiðunum.

Eygló sagði að á öllum Norðurlöndunum hefði menntunarbylting og mikil atvinnuþátttaka kvenna verið undirstaða velferðar og efnahagslegar hagsældar.

Hún minnti á mikilsvert framlag kvennahreyfingarinnar og sagði frá íslenska kvennafrídeginum sem fram fór á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október 1975.

Þá hefðu um fjórðungur  íslenskra kvenna lagt niður vinnu til að leggja áherslu á mikilvægi framlags vinnu þeirra til íslensks efnahagslífs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×