Innlent

"Þetta má ekki verða enn ein skýrslan"

Birta Björnsdóttir skrifar
Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa frá 2010 unnið að stefnumótun um meðal annars gæði skólastarfs í alþjóðlegum samanburði auk aukinnar samvinnu skólastiga, allt frá leikskóla að háskóla. Samtökin gerðu grein fyrir starfi sínu og helstu niðurstöðum á þessu sviði í Austurbæjarskóla í dag.

Þar kom meðal annars fram að hluta af þeim 400 milljónum sem samtökunum var veitt til verksins fór í framkvæmd á greiningum á stöðu mála, og þar kom ýmislegt áhugavert fram. Meðal annars staðreyndir um brotthvarf nemenda úr framhaldsskólum.

Samkvæmt niðurstöðum hagrænnar greiningar kostar brotthvarf nemenda úr framhaldsskólum samfélagið um 52 milljarða ár hvert, þar af 32 milljónir á höfðuðborgarsvæiðinu.

„Það er augljóst að þetta eru slíkir fjármunir að við þurfum að bregðast við. Við erum að bjóða upp í samstarf, þessi sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, við ríkisvaldið, um sjö ára aðgerðaráætlun sem miði að þvi að minnka brotthvarfið um helming með því að tengja betur saman gunnskólana og framhaldsskólana, því ræturnar liggja í grunnskólunum,“ segir Skúli Helgason, verkefnastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í menntamálum.

Þessi tenging milli gunn- og framhaldsskóla gæti meðal annars verið fólgin í því að færa forræði framhaldsskólanna yfir á hendur sveitarfélaga í stað ríkis. Með því sé meðal annars hægt að auka skilvirkni skólastarfs og gera þjónustu við nemendur markvissari.

„Að skólastarfið okkar alls staðar miði að því að vinna með það sem krakkarnir eru góðir í og vinna með styrkleika þeirra. Frekar en að vera að vera sífellt að reyna að koma sömu þekkingarkílóunum inn hjá hverjum einasta nemanda,“ segir Skúli.

Hann segir mikilvægt að vinnan verði nýtt til góðra verka.

„Þetta má ekki verða enn ein skýrslan, það er gríðarlega mikið í húfi, ekki bara framtíð barnanna okkar heldur einnig samfélagsins alls,“ segir Skúli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×