Innlent

Ferðamannavagn í Kópavog í allt sumar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Á mynd frá vinstri: Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Áshildur Bragadóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs, Guðrún Margrét Örnólfsdóttir markaðsstjóri Smáralindar, Sturla Gunnar Eðvarðsson framkvæmdastjóri Smáralindar og Haraldur Teitsson framkvæmdastjóri Hópbíla Teits Jónassonar.
Á mynd frá vinstri: Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Áshildur Bragadóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs, Guðrún Margrét Örnólfsdóttir markaðsstjóri Smáralindar, Sturla Gunnar Eðvarðsson framkvæmdastjóri Smáralindar og Haraldur Teitsson framkvæmdastjóri Hópbíla Teits Jónassonar. mynd/aðsend
Undirritaður hefur verið samstarfssamningur milli Smáralindar, Kópavogsbæjar og Hópbíla Teits Jónassonar um að halda úti reglubundnum ferðum ferðamannavagns í allt sumar, ferðamönnum að kostnaðarlausu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Kópavogsbæ.

Ferðamannavagninn mun fara fjórar ferðir fram og til baka frá upplýsingamiðstöð ferðamanna í Aðalstræti í Reykjavík inn í Kópavog, og fimm ferðir á fimmtudögum. Ferðirnar hefjast föstudaginn 15. maí og síðasta ferð verður farin sunnudaginn 31. ágúst.

Í Kópavogi munu ferðamenn geta valið um að fara með vagninum í Hamraborgina til að upplifa fjölbreytta menningu og listir í listhúsum bæjarins og skreppa í sund, eða halda áfram með vagninum í Smáralind til að versla og njóta góðra veitinga og skemmtunar.

Hópabílar Teits Jónassonar mun sjá um akstur ferðamannavagnsins frá miðbæ Reykjavíkur, og tekur ferðamannavagninn 20 farþega í sæti auk þess sem stæði eru fyrir 12 manns.

Smáralind hélt úti ferðamannavagni frá miðbæ Reykjavíkur í Smáralind síðastaliðið sumar og gafst það verkefni vel. Á annað þúsund ferðamenn nýttu sér þann möguleika að heimsækja stærstu verslunarmiðstöð landsins og gátu komist leiðar sinnar frítt með einföldum og skjótvirkum hætti.

Markaðsstofa Kópavogs sá um að koma á samstarfi milli Smáralindar og Kópavogsbæjar um rekstur ferðamannavagnsins í Kópavog í sumar og er ljóst að með tilkomu samstarfsins aukast möguleikar ferðamanna við að njóta afþreyingar, verslunar, menningar og lista meðan á dvöl þeirra stendur hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×