Innlent

Mörgum spurningum ósvarað

Elimar Hauksson skrifar
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, segir ákvörðun stjórnvalda um að slíta viðræðum við Evrópusambandið hafi verið byggð á röngum forsendum og fleiri þætti þurfi að skoða áður en aðild hafi verið útilokuð.

„Lífskjör hér á landi byggja á því að við aukum framleiðni hér á landi en hún gerist aðeins með kerfisbreytingum sem kalla á nýja mynt. Það er þessi framtíð til að skapa ný verðmæti sem er í húfi,“ segir Þorsteinn.

Í rúmlega 600 blaðsíðna skýrslu Seðlabanka Íslands um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum sem gefin var út í september 2012, kemur fram að ef tengja eigi krónuna við annan gjaldmiðil eða taka upp annan gjaldmiðil, þá sé upptaka evru augljósasti kosturinn. Gylfi Zöega, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands segir að slit aðildarviðræðna muni fela í sér þrengri kosti fyrir Ísland í gjaldeyrismálum og að skynsamlegra hefði verið að leysa vandamál tengd krónunni áður en aðild að ESB væri útilokuð.

„Áhrifin eru einföld. Í stað þess að eiga tvo kosti, þá höfum við einn kost í gjaldmiðlamálum í framtíðinni sem er að hafa krónuna áfram. Þá verður einnig úr sögunni að festa gengi krónunnar við evru eins og Danir hafa gert,“ segir Gylfi og bætir við að Seðlabankinn hafi sett fram hugmyndir í skjali sem heitir „Peningastefna eftir höft.“ Enn eigi eftir að vinna úr þeirri skýrslu og skýra fyrir fólki hvernig framtíðin yrði.

„Kannski má segja að fyrst þurfi maður að gera það og síðan má útiloka aðra kosti af því við vitum ekki hvernig framtíðin verður með krónuna,“ segir Gylfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×