Íslenski boltinn

Peningarnir bara fyrir liðin í efstu deild

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liðin í efstu deild eru þau einu sem skipta með sér 120 milljón króna styrk frá Knattspyrnusambandi Íslands en þetta kom fram í frétt Guðjóns Guðmundssonar í kvöldfréttatíma Stöðvar tvö.

Liðin í Pepsi-deildinni fá 120 milljónir króna til skiptanna fyrir sjónvarps- og markaðsrétt í deild og bikar hér heima. Samtök félaga í efstu deild hafa ekkert með málið að gera og upphæðin rennur ekki til þeirra.

„Íslenskur toppfótbolti gerði samning við KSÍ og þar er Íslenskur toppfótbolti aðeins milligönguaðili. Þessir fjármunir renna til efstudeildarfélaganna en þessi samningur er mjög mikilvægur því hann formgerir samskipti félaganna og KSÍ varðandi þessi réttindi," sagði Almar Guðmundsson, formaður samtakanna Íslenskur toppfótbolti, í samtali við Gaupa.

„Þetta eru jafnar greiðslur sem byggja á sjónvarpsréttinum og sölu á þeim sem grundvallast af Pepsi-deildinni í þessu tilfelli," segir Almar. Valur er ekki aðili að samtökunum Íslenskur toppfótbolti en fær engu að síður sömu greiðslur og önnur félög í Pepsi-deild karla.

„Íslenskur toppfótbolti er settur upp sem hagsmunasamtök fyrir öll efstudeildarfélögin. Ég segi það að Valsmenn séu á leiðinni til okkar en í þessu tilfelli hefur þetta ekki áhrif á þeirra rétt," segir Almar.

Það má sjá alla frétt Gaupa með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×