Lífið

Keypti einkanúmerið AMEN til að þakka fyrir allt það góða

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Salomon keypti einkanúmerið til að þakka fyrir það góða sem hann hefur fengið í lífinu.
Salomon keypti einkanúmerið til að þakka fyrir það góða sem hann hefur fengið í lífinu.
„Ég er búinn að eiga þetta númer í rétt rúmlega ár,“ segir Salomon Ndure, eigandi hvítrar Chrysler-bifreiðar sem ber einkanúmerið AMEN. Bíllinn hefur afar kristilegt yfirbragð og hangir voldugur kross úr baksýnisspeglinum.

Salomon segist í samtali við Vísi vera temmilega trúaður en að ákvörðunin um einkanúmerið hafi verið tekin fyrst og fremst til að þakka fyrir það góða sem hann hefur fengið í lífinu.

„Ég trúi auðvitað á Jesú Krist og allt það, en þetta á meira að þýða að góðir hlutir gerast hægt,“ segir Salomon sem er á leið til Bandaríkjanna að spila knattspyrnu. Hann hefur leikið með Fram hér á landi, San Jose Earthquakes í Bandaríkjunum og velska liðinu TNS.

„Ég og einn félagi minn vorum bara á Laugavegsrúntinum að spjalla um einkanúmer og ég sagði bara: „Af hverju ekki AMEN?“,“ segir Salomon, sem keypti númerið skömmu síðar.

Hann segir númerið vekja mikla athygli og yfirleitt jákvæða. „Fólk vill taka myndir af bílnum og mér. Maður er bara jákvæður og tekur þessu með brosi. Svo hafa aðrir spurt hvort prestur eigi þennan bíl.“

Hann segist ætla að reyna að taka bílinn með út til Bandaríkjanna og aðspurður segir hann bílinn ekki ganga á vígðu vatni. „Nei hann tekur bara venjulegt 95 oktana,“ segir Salomon og hlær að aulafyndni fréttamanns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.