Innlent

Heimtur nema 15 milljónum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Innan við 0,2 prósent fást upp í kröfur í þrotabú einkahlutafélagsins Hreiðar Már Sigurðsson ehf. en af 7,7 milljarða króna kröfum fást um 15 milljónir króna greiddar.

Einkahlutafélagið Hreiðar Már Sigurðsson ehf. var stofnað árið 2006. Félagið hélt utan um hlutabréfaeign Hreiðars Más, sem var forstjóri Kaupþings banka, í bankanum sjálfum. Félagið var lýst gjaldþrota í apríl 2011 af héraðsdómi en eignir þess urðu verðlausar eftir fall bankanna haustið 2008.

Hreiðar Már átti ekki nein hlutabréf persónulega í Kaupþingi þar sem hann færði hlutabréfaeign sína og skuldir hennar tengdar yfir í einkahlutafélagið árið 2006. Hlutabréf sem hann keypti eftir þann tíma voru jafnóðum verið færð yfir í félagið.

Aðeins 0,196% af 7,7 milljörðum fást upp í kröfur í bú félagsins. Nema heimtur því um 15 milljónum. Þetta kemur fram í frumvarpi til úthlutunar úr búinu sem verður kynnt á skiptafundi eftir tvær vikur, en frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Hreiðar Már var eigandi félagsins en stærsti kröfuhafi er Arion banki og þá er embætti tollstjóra með litla kröfu.

Hreiðar Már var aðeins annar tveggja stjórnenda hjá Kaupþingi sem fékk að hafa skuldir vegna hlutabréfakaupa í einkahlutafélagi. Hinn var Kristján Arason sem lét færa skuldir sínar í félagið 7 hægri ehf. Slitastjórn Kaupþings höfðaði mál á hendur Hreiðari Má og eiginkonu hans vegna lánveitinga til einkahlutafélagsins. Það er nú rekið fyrir dómstólum.

Hreiðar Már Sigurðsson var í desember dæmdur í fimm og hálfs árs óskilorðsbundið fangelsi fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun í Al-Thani málinu. Dómnum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×