Innlent

Fleiri með presta en lækni í kauptúninu

Sveinn Arnarsson skrifar
Reykjavík og höfuðborgarsvæðið bera höfuð og herðar yfir aðra staði á landinu hvað varðar staðsetningu opinberra stofnana.
Reykjavík og höfuðborgarsvæðið bera höfuð og herðar yfir aðra staði á landinu hvað varðar staðsetningu opinberra stofnana.
Prestar eru í fleiri þéttbýliskjörnum á landinu en heilsugæsla.

Þetta kemur fram í úttekt Byggðastofnunar á staðsetningu starfa ríkisins árið 2014. Presta er ekki að finna í tólf sveitarfélögum landsins og heilsugæslu er ekki að finna í fimmtán sveitarfélögum. Höfuðborgarsvæðið sker sig úr með langflestar stofnanir hins opinbera.

Þrír þéttbýlisstaðir landsins hafa enga ríkisstarfsmenn í sinni byggð. Það eru Svalbarðseyri, skammt utan Akureyrar, Stöðvarfjörður á Austurlandi, og Stokkseyri á Suðurlandi. Engin ríkisstofnun eða útibú á vegum ríkisins er á þessum þéttbýlisstöðum.

Björn Valur Gíslason, varaþingmaður VG, hefur lagt fram fyrirspurnir á þingi til allra ráðuneyta um fjölda opinberra starfa og framtíðarhorfur ráðuneytanna í starfsmannamálum.

„Það má eflaust gera betur í dreifingu starfa ríkisins og eflaust er ekki nægilega vel gefið milli landshluta hvað þetta varðar. Fyrirspurnir mínar snúast fyrst og fremst um að fá vitræna umræðu í þjóðfélaginu um framtíð starfa ríkisins. Það má ekki vera svo að störf einstaklinga séu einungis rædd meðal embættismanna í ráðuneytunum,“ segir Björn Valur.

Björn Valur Gíslason
Reykjavík notið „stórkostlegs byggðastuðnings“

Fram kemur í úttektinni að Reykjavík og höfuðborgarsvæðið beri höfuð og herðar yfir aðra staði hvað varðar staðsetningu starfa ríkisins.

„Staðsetning starfa á vegum ríkisins er oft nefnd sem byggðamál en líklega sjaldan í samhengi við Reykjavík sem þó hefur notið stórkostlegs byggðastuðnings stjórnvalda að þessu leyti með höfuðstöðvar stjórnsýslu og langflestra starfsþátta ríkisins. Einkum þeirra sem hafa landið allt að vettvangi og marga starfsmenn,“ segir í úttektinni. 

Sjá má í úttektinni hve Reykjavík skarar fram úr sem þjónustustaður ríkisins með flestar ríkisstofnanir. Höfuðborgarsvæðið allt er einnig gríðarlega stór þjónustukjarni fyrir allt landið. Einnig má sjá að Akureyri er sá þéttbýliskjarni utan höfuðborgarsvæðisins sem hýsir flestar þjónustustofnanir hins opinbera. Þá má greina Ísafjörð, Sauðárkrók, Egilsstaði og Selfoss frá hinum minni byggðum.

Byggðastofnun telur fjölda stofnana og þjónustu hins opinbera í hverjum byggðakjarna fyrir sig en greinir ekki frá fjölda starfsmanna á hverri stofnun. Til dæmis telur einn prestur í Ólafsfirði jafn mikið í greiningu Byggðastofnunar og allir prestar sem starfandi eru í Reykjavík.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.