Innlent

Fundað í tæpar 600 klukkustundir á Alþingi

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
59 fyrirspurnum var svarað munnlega á fyrirspurnarfundum og 206 fyrirspurnum var svarað skriflega. Ráðherrar svöruðu svo 226 fyrirspurnum í óundirbúnum fyrirspurnartímum.
59 fyrirspurnum var svarað munnlega á fyrirspurnarfundum og 206 fyrirspurnum var svarað skriflega. Ráðherrar svöruðu svo 226 fyrirspurnum í óundirbúnum fyrirspurnartímum. VÍSIR/GVA
Samtals stóðu þingfundir 143. þings Alþingis í 596 klukkustundir en fundirnir voru samtals 121. Þingið stóð frá 1. október 2013 þar til í gær. Þetta kom fram í máli Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis, við þingfrestun í gærkvöldi. Hann sagði þinginu hafa verið sniðinn þröngur stakkur vegna sveitarstjórnarkosninganna. En með góðu skipulagi var fjöldi þingfunda og nefndadaga þó ekki ósvipaður því sem hefur verið að jafnaði.

Lengsta umræðan var um fjárlög og stóð sú umræða í rúmar 47 klukkustundir. Umræður um aðildarviðræður við Evrópusambandið tók rúmar 27 klukkustundir. Alþingi samþykkti 91 frumvarp sem lög og 48 þingsályktanir.

59 fyrirspurnum var svarað munnlega á fyrirspurnarfundum og 206 fyrirspurnum var svarað skriflega. Ráðherrar svöruðu svo 226 fyrirspurnum í óundirbúnum fyrirspurnartímum.

Nefndarfundir stóðu yfir í 895 klukkustundir og meðaltalið á hverja nefnd er 112 klukkustundir. Á yfirstandandi þingi voru 503 nefndarfundir haldnir og eru það 63 fundir að meðaltali á hverja fastanefnd.

Þrettán dagar voru eingöngu helgaðir nefndarstarfi fyrir utan reglubundna nefndafundi yfir þingtímann. Nefndum bárust 1758 umsagnir og erindi og gestir á fundum nefnda voru 2127 manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×