Innlent

Jákvæð rekstrarniðurstaða hjá Árborg fimmta árið í röð

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar. Ljósmynd/Magnús Hlynur Hreiðarsson.
„Áætlunin gerir ráð fyrir því að ríflega 10 milljóna króna afgangur verði af rekstri á árinu 2015, þ.e. eftir fjármagnsgjöld, afskriftir og skatta. Er því um að ræða fimmta árið í röð sem gert er ráð fyrir jákvæðri afkomu af rekstri sveitarfélagsins og ljóst að varanlegur viðsnúningur hefur orðið hvað það varðar“, segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins þegar hún var spurð um niðurstöðu fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins, sem var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í gær.

Rekstrarútgjöld hækka umtalsvert milli ára og gætir þar verulegra áhrifa af kjarasamningsbundnum launahækkunum sem falla til á síðari hluta ársins 2014 og á árinu 2015. Sem dæmi má nefna hækka rekstrargjöld vegna fræðslu- og uppeldismála um 330 millj.kr. frá áætlun 2014, með viðauka, til fjárhagsáætlunar 2015. Rekstrarafgangur fyrir fjármagnsgjöld og skatta er áætlaður 407,5 millj.kr.

„Fjárfestingar eru áætlaðar meiri en verið hafa síðustu ár, að árinu 2014 undanskildu, en áætlun gerir ráð fyrir fjárfestingu árið 2015 fyrir 792 millj.kr. Stór fjárfestingarverkefni eru mun meira áberandi en síðustu ár, þ.e. viðbygging við Sundhöll Selfoss og Sunnulækjarskóla á Selfossi og framkvæmdir vegna hreinsistöðvar fráveitu. Eru verkefni því heldur færri en verið hafa síðustu ár, en að sama skapi er hvert og eitt þessara stærri verkefna fjárfrekara“, segir Ásta.

Þrátt fyrir að þessi stóru verkefni taki til sín stærstan hluta þess fjármagns sem ætlað er til framkvæmda á næsta ári eru ýmis smærri verkefnum á dagskrá, s.s. viðhald gangstétta, endurbætur á tjaldsvæðum, vatnsöflun o.fl. Þá verður ráðist í framkvæmdir við endurbætur á Tryggvagötu á Selfossi og haldið áfram við lagningu göngustígs á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar, auk þess sem unnið verður að viðhaldi ýmissa fasteigna í eigu sveitarfélagsins.

„Verkefni næsta árs eru því af ýmsum toga og munu kalla á talsvert mikla aðkeypta vinnu. Sum verkefnanna hafa þegar verið boðin út, önnur eru í útboðsferli og ljóst að framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins sem framundan eru kalla á talsverðan mannafla“, bætir Ásta við.

Fjárhagsætlunin gerir ráð fyrir að skuldir og lífeyrisskuldbinding verði 10,4 milljarðar 2015. Í framkvæmdir við hreinsistöðina eru áætlaðar 35 m.kr. á næsta ári, , 150 m.kr. 2016 og 75 m.kr. 2017, og þá verði verkefninu lokið.

Á þessu ári hefur um 40 m.kr. verið ráðstafað í verkefnið, þ.e. undirbúning, hönnun, útboðsgögn og tækjakaup. Í þriggja ára áætlun er síðan gert ráð fyrir að hefjast handa við endurbætur í fráveitu á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Áætlað er að skuldahlutfall verði áfram undir viðmiðum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×