Lífið

GoPro-æðið mikla á Íslandi

Skíðakappar nota GoPro vélar mikið þegar fanga á fönguleg augnablik
Skíðakappar nota GoPro vélar mikið þegar fanga á fönguleg augnablik
„Þetta kom hingað til Íslands fyrir svona þremur til fjórum árum og varð strax mjög vinsælt,“ segir Hjörvar Freyr Hjörvarsson, vörustjóri tæknideildar Elko, en á Íslandi og um heim allan er mikið GoPro-myndavélaæði og ekki að ástæðulausu.

GoPro-myndavélar eru vatnsheldar, höggvarðar og einfaldar í notkun. „Þetta er lítil og meðfærileg tökuvél sem þolir ýmislegt. Hún þolir að fara á fjörutíu metra dýpi, er höggvarin og með góða linsu,“ segir Hjörvar Freyr um nytsemi vélarinnar.

Vélin, sem kom hingað til lands fyrir um fjórum árum, er hönnuð af manni að nafni Nick Woodman. Árið 2002 vildi hann taka upp myndband af sér á brimbretti við strendur Ástralíu en þá var erfitt að finna vél sem þoldi það að fara ofan í vatn og þess háttar.

Hér er fjallgöngukappi að mynda ferð sína.
Hægt er að festa GoPro-myndavélina á nánast allt, til dæmis hjálminn á meðan þú skíðar niður brekku eða hjólar í fjöllunum, á gæludýrið, á bílinn eða framan á kajakinn. „Þú getur notað þetta í nánast hvað sem er. Stórfyrirtæki eins og BBC eru farin að nota svona vélar. Þetta er líka mjög sniðugt fyrir þá sem eru ekkert of tæknivæddir því þetta er svo einfalt í notkun,“ bætir Hjörvar Freyr við.

GoPro Hero 3+ er nýjasta útgáfan, sem er í raun fjórða útgáfa vélarinnar. „Það eru svo til mismunandi útgáfur. Þetta kostar frá 40.000 krónum upp í 80.000 krónur. Við hjá Elko seljum mikið af þessu,“ segir Hjörvar Freyr.

Allar GoPro-vélarnar taka upp í HD gæðum en dýrari vélarnar taka upp í 4K-upptöku. 4K-upptakan er með um það bil fjórum sinnum meiri upplausn en Full HD.

GoPro-myndavélin þolir ýmislegt og virkar því vel þegar fanga á mikilfengleg augnablik í lífi okkar.
Vinsælir aukahlutir við GoPro-vélina eru til dæmis sogskálafestingar sem hægt er að nota við ýmis tilefni, höfuðólar sem eru hentugar fyrir þá sem eru í miklum hamagangi. Þá er einnig hægt að fá festingar fyrir hjálma, festingar fyrir bringu og handlegg.

Í raun eru möguleikarnir rosa miklir með GoPro-myndavélum. Þetta er tilvalin leið fyrir þá sem vilja fanga góð augnablik og leyfa öðrum að upplifa upplifun sína, til dæmis með því að festa vélina á höfuðið og skíða niður brattar brekkur og deila þar með upplifun sinni og reynslu í gegnum GoPro-vélina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.