Lífið

Safna „selfie“-myndum Íslendinga

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Spegilbrot skipa, ásamt Hallfríði, þau Auður Friðriksdóttir, Guðmundur Felixson, Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir og Þorvaldur Sigurbjörn Helgason.
Spegilbrot skipa, ásamt Hallfríði, þau Auður Friðriksdóttir, Guðmundur Felixson, Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir og Þorvaldur Sigurbjörn Helgason. Vísir/Pjetur
„Okkur langar að blása til landssöfnunar á íslenskum „selfie“-myndum þannig að við getum búið til litla ljósmyndasýningu á Instagram,“ segir Hallfríður Þóra Tryggvadóttir, meðlimur í sviðslistahópnum Spegilbrot. Hópurinn hefur söfnun á svokölluðum „selfie“-myndum, eða sjálfsmyndum, á Instagram í dag og getur fólk tekið þátt með því að setja sjálfsmyndir af sér inn á síðuna með kassmerkinu #spegilbrot.

„Þessi hugmynd kviknaði í miðri vinnu hjá okkur við gerð upplifunarsýningarinnar Spegilbrot sem við frumsýnum í Tjarnarbíói 16. apríl. Við erum búin að skoða spegla út frá öllum hliðum, bæði venjulega, manngerða spegla sem fólk speglar sig í og líka allt annað sem maður speglar sig í í samfélaginu. Í kjölfarið könnuðum við hvernig fólk hegðar sér á internetinu og tókum eftir því að það hefur færst í aukana að fólk taki myndir af sjálfu sér, bæði með því að hafa myndavélina fyrir framan sig og með því að taka myndir í speglum,“ segir Hallfríður. Hún hvetur fólk til að taka þátt í söfnuninni sem lýkur á miðnætti sunnudaginn 23. mars.

„Þar ætti fólk að geta skoðað þverskurð af þjóðinni út frá því hvernig myndum fólk póstar. Rúsínan í pylsuendanum er að myndirnar sem fólk sendir inn gætu mögulega endað í sýningunni okkar. Það er ekkert sem fólk þarf að hræðast heldur bara smá skemmtilegheit,“ bætir Hallfríður við.

Þrjár myndir fá gjafapakka sem innihalda meðal annars vegleg gjafabréf í fataverslunum, málsverði og miða á sýninguna Spegilbrot. Tíu myndir verða valdar af handahófi til að keppa um verðlaunin með því að safna sem flestum „like“-um og þátttakendur eru hvattir til að fylgjast vel með þegar líður tekur á söfnunina.

„Við vonum að sem flestir taki þátt. Miðað við hvað fólk er öflugt að birta af sér sjálfsmyndir ætti það að vera til í tuskið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.