Innlent

Sigraði í Mottumars með miðasölu á ball

Vinir Villa tóku við verðlaununum í lokahófi Mottumars 2014 í Hörpu í gær.
Vinir Villa tóku við verðlaununum í lokahófi Mottumars 2014 í Hörpu í gær. Vísir/Daníel
„Allur ágóði af ballinu sem ég held í kvöld rennur óskiptur til Krabbameinsfélagsins,“ sagði Páll Sævar Guðjónsson þegar hann hafði sigrað í einstaklingskeppni Mottumars 2014 í gær.

Páll safnaði samtals 1.069.000 krónum. Hann sigraði í keppninni með sex hundruð þúsund króna áheiti um klukkustund áður en söfnunarátakinu lauk.

Páll Sævar Guðjónsson.
„Ég stend fyrir árgangaballi fyrrverandi nemenda úr Hagaskóla á veitingastaðnum Rúbín og þessi upphæð er brot af því sem kemur inn í miðasölunni,“ segir Páll og tekur fram að upphæðin geti á endanum orðið enn hærri.

Páll greindist sjálfur með krabbamein í ristli í janúar 2012, þá 42 ára gamall. Hann er nú laus við meinið en fer í reglubundið eftirlit. Páll starfar sem skrifstofustjóri og er einnig vallarþulur á Laugardalsvelli og KR-vellinum í Frostaskjóli.

Liðið Vinir Villa fór með sigur af hólmi í liðakeppni söfnunarátaksins. Meðlimir liðsins söfnuðu 1.223.000 krónum en þeir voru allir vinir Vilhjálms Óla Valssonar, sigurvegara Mottumars 2013, sem lést af völdum krabbameins í lok mars í fyrra. 

„Það er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi komið á óvart enda áttum við ekki von á því að þetta færi yfir milljón krónur,“ segir Hreggviður Símonarson, liðsstjóri Vina Villa. 

Hann segir upphaflegt markmið liðsins hafa hljóðað upp á eitt hundrað þúsund krónur en það var síðan hækkað upp í 1.639.000 krónur, sömu upphæð og Vilhjálmur safnaði árið 2013. 

„Við misstum þrjá samstarfsfélaga hjá Landhelgisgæslunni úr krabbameini í fyrra þannig að við vorum í rauninni að heiðra minningu þeirra allra með þessu,“ segir Hreggviður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×