Innlent

Viðgerð á vegi fjórfalt dýrari

Svavar Hávarðsson skrifar
Vegamálastjóri telur 2–3 milljarða vanta til viðbótar á hverju ári til viðhaldsverkefna.
Vegamálastjóri telur 2–3 milljarða vanta til viðbótar á hverju ári til viðhaldsverkefna. Fréttablaðið/Pjetur
Ráðast hefði þurft í viðhald á rúmlega tvö þúsund kílómetrum af vegum með bundnu slitlagi í fyrra umfram það sem var gert. Með sömu eða lítt breyttum fjárveitingum til Vegagerðarinnar vegna viðhaldsverkefna mun þetta eiga við um rúmlega þrjú þúsund kílómetra árið 2017.

Þetta sýnir rannsókn sem tveir sérfræðingar Vegagerðarinnar gerðu á ástandi vega með bundnu slitlagi í fyrra.

Jón Magnússon, deildarstjóri hjá Vegagerðinni, segir að niðurstaða sín og kollega síns, Einars Gíslasonar, sé að viðhald vega sé arðbærasta fjárfestingin í samgöngumálum sem finnst, og að niður­skurður á viðhaldi kalli óumflýjanlega á auknar fjárveitingar síðar meir.

Jón segir að nýlegt dæmi sýni þetta svart á hvítu. Viðgerð á veginum yfir Þverárfjall hafi orðið um fjórfalt dýrari en ef fjármagn hefði verið til staðar til eðlilegs viðhalds á sama stað í gegnum árin.

Nú eru um 5.300 kílómetrar af tæplega 13.000 kílómetra vegakerfi með bundið slitlag. „Niðurstöðurnar leiða í ljós, að þrátt fyrir fulla nýtingu viðhaldsfjármagns á yfirstandandi ári, munu 2.058 kílómetrar af vegum með bundnu slitlagi ekki standast lágmarkskröfur Vegagerðarinnar í árslok 2013. Sé litið til næstu ára miðað við óbreytt fjármagn, er ljóst að þróunin er uggvænleg og í árslok 2017 er heildarlengd þessara vega sem ekki uppfylla lágmarkskröfur orðin alls 3.064 kílómetrar. Með öðrum orðum er fyrirsjáanlegt að 58% af vegakerfi landsins með bundnu slitlagi árið 2017 er undir þeim mörkum, að þeim verði haldið við með eðlilegum hætti til framtíðar. Af þessu má vera ljóst að niðurskurður í viðhaldi á vegum mun alltaf leiða til verulega aukins kostnaðar til lengri tíma litið,“ segir í samantekt þeirra Jóns og Einars.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri sagði í viðtali við Fréttablaðið í gær að Vegagerðin þyrfti tvo til þrjá milljarða til viðbótar í heildarframlög til viðhaldsverkefna ef halda ætti í horfinu. Fimm milljarðar eru veittir til þessara verkefna í ár. Hreinn sagði jafnframt að nú sæi jafnvel til sólar hvað þennan lið fjárveitinga varðar og vonaði að botninum væri náð. 

Samkvæmt tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2013–2016, sem nú er til meðferðar hjá umhverfis- og samgöngunefnd, er erfitt að finna því stað að fjárveitingar verði auknar svo verulegu máli skipti. Heildarfjárveiting til viðhalds milli ára er óbreytt; fimm milljarðar á þessu ári sem hækkar í 5,450 milljarða 2015 og í 5,500 milljarða 2016. Um 40% af fjárveitingum til viðhalds hafa runnið til viðhalds vega með bundið slitlag, er skilningur Fréttablaðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×