Innlent

Starfshópur skoðar Lagarfljótið

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Heimamenn vilja að Landsvirkjun grípi til aðgerða til að draga úr neikvæðum áhrifum Kárahnjúkavirkjunar.
Heimamenn vilja að Landsvirkjun grípi til aðgerða til að draga úr neikvæðum áhrifum Kárahnjúkavirkjunar.
„Það er samhljómur í því að við vinnum saman á næstu vikum úr þessum málum,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, eftir fund um ástandið í Lagarfljóti með Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar í gær.

Bæjarstjórnin óskaði eftir því að forstjóri Landsvirkjunar kæmi til fundar eftir umræðu um neikvæð áhrif Kárahnjúkavirkjunar á Lagarfljót og umhverfi þess. Björn segir fundinn með Herði hafa verið ágætan. Auk hans sjálfs hafi fulltrúar úr bæjarstjórn rætt við forstjórann. „Væntanlega verður myndaður starfshópur sem er lausnamiðaður því menn gera sér grein fyrir að það eru ákveðin vandamál sem þarf að leysa,“ segir Björn.

Bæjarstjórinn minnir á að sveitarfélagið sé ekki eini hagsmunaaðilinn á svæðinu því landeigendur og veiðifélög séu ósáttir við landbrot og versnandi skilyrði fiskistofna. Hörður Arnarson mun einmitt hafa fundað með fulltrúum veiðifélaganna við Lagarfljót á mánudag. Einnig stendur til að hann hitti landeigendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×