Innlent

Mengunarslys við Bláfjöll - vatnsból í hættu

Olían helltist niður skammt frá skálanum.
Olían helltist niður skammt frá skálanum.
Um 600 lítrar af olíu helltust niður þegar þyrla hugðist flytja ker fullt af olíu af bílastæði við Bláfjallaskála upp að Þríhnúkagíg nú fyrir stundu.

Samkvæmt gæðastjóra Orkuveitunnar, Kristjönu Kjartansdóttur, sem fylgdist með aðgerðunum, losnaði festing þegar þyrlan var tekin á loft og féll kerið í heild sinni niður á bílastæðið með þeim afleiðingum að það brotnaði og olían helltist niður.

„Hefði þyrlan flogið fimm metrum lengra hefði öll olían farið ofan í jörðina,“ útskýrir Kristjana en um er að ræða vatnsverndarsvæði, sem er ástæðan fyrri veru Orkuveitunnar á staðnum, en undir staðnum er grunnvatnsstraumur sem liggur niður í Vatnsendakrika í vatnsból sem og í Kaldársel. Fyrir þá sem ekki vita eru bæði svæðin vatnstökusvæði fyrir Reykjavík og Hafnarfjörð.

„Það er ómögulegt að fullyrða hvað gerist nú, en það er mögulegt að það þurfi að hreinsa vatnsbólin“ segir Kristjana en ef olían fer í hraunið mun hún líklega blandast straumnum og enda í vatnsbólunum.

Orkuveitan er afar ósátt við að þarna sé verið að sýsla með hættuleg efni á viðkvæmu landsvæði, en þess má geta að svæðið er á vegum Kópavogsbæjar og að sögn Kristjönu veitti heilbrigðiseftirlitið þar í bæ fyrirtæki leyfi til þess að flytja olíuna upp að Þríhnúkagíg.

„Við höfum haft miklar áhyggjur af þessu enda fylgi þessu of mikil áhætta að okkar mati,“ segir Kristjana

Olíuna átti að nota í ljósalampa sem eru notaðir til þess að lýsa hellinn upp.

Þessa stundina eru slökkviliðsmenn á vettvangi að hreinsa olíuna upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×