Lífið

Klárlega þörf á fróðleiksbók fyrir stráka

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Bjarni Fritzson og Kristín Tómasdóttir sátt með bókina.
Bjarni Fritzson og Kristín Tómasdóttir sátt með bókina. mynd/Sigfús Már Pétursson
„Það var klárlega kominn tími á svona fróðleiksbók fyrir stráka,“ segir Bjarni Fritzson sem gaf nýverið út bókina Strákar ásamt Kristínu Tómasdóttur.

Bjarni er líklega best þekktur sem atvinnumaður og þjálfari í handbolta en Kristín hefur um árabil unnið að æskulýðsmálum og er einnig reyndur höfundur. Bókin er sú fyrsta sem Bjarni skrifar en Kristín er hins vegar reynslubolti í faginu.

„Ég hef skrifað þrjár stelpubækur og hafði hugsað um það lengi að skrifa strákabók og fannst alveg frábært að fá Bjarna með mér í þetta,“ segir Kristín.

Bókin fjallar um líf stráka frá öllum mögulegu hliðum. „Við vildum hafa bókina fulla af áhugaverðum fróðleiksmolum en hafa hana skemmtilega í senn,“ segir Bjarni. Ýmsir þekktir einstaklingar leggja hönd á plóg til að fá víðari innsýn í efnið og miðla reynslu sinni.

Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður, Guðmundur Jörundsson fatahönnuður, Alfreð Finnbogason knattspyrnumaður, Logi Bergmann fjölmiðlamaður og ýmsir fleiri flottir og ólíkir strákar miðla reynslu sinni.

„Unglingar þurfa upplýsingar á þessum árum frá tíu til tuttugu ára því sjálfsmyndin er svo mikið að breytast og fylgja því margar spurningar og reynum við að koma með upplýsingar sem gætu hjálpað til við að svara slíkum spurningum,“ segir Kristín.

Strákar er gefin út af Veröld og er komin í verslanir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.