Lífið

Frumsýnir heimildarmynd um dauðann

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Dauðans alvara er fyrsta heimildarmyndin sem Áslaug lýkur við.
Dauðans alvara er fyrsta heimildarmyndin sem Áslaug lýkur við. Fréttablaðið/Valli
Heimildarmyndin Dauðans alvara er frumsýnd í Bíó Paradís í kvöld. Myndin segir frá ferlinu sem á sér stað frá andláti til grafar en leikstjóri myndarinnar, Áslaug Baldursdóttir, fékk hugmyndina þegar hún var að ljúka meistaranámi.

„Hugmyndin kom til mín þegar ég var að ljúka meistaranámi í hagnýtri menningarmiðlun í Háskóla Íslands. Mig langaði að tengja lokaritgerðina mína um dauða í íslensku samfélagi við raunverulegt verkefni. Ég hafði aðeins verið að fikta í heimildarmyndagerð og fékk þá hugmynd að gera mynd um útfararþjónustu aðallega vegna þess að ég hafði ekki séð neitt því líkt hér á landi. Auk þess hefur ekki verið nein alvöruumfjöllun um hvað gerist frá andláti til grafar hér á landi. Mér fannst áhugavert að opna þá umræðu í staðinn fyrir að líta á þetta sem tabú,“ segir Áslaug. Hún leikstýrir heimildarmyndinni Dauðans alvara en í henni er sagt frá því ferli sem á sér stað frá andláti til grafar. Áslaug setti sig í samband við Útfararþjónustuna í Reykjavík og voru viðbrögðin betri en hún átti von á.

„Rúnar Geirmundsson og synir hans hjá Útfararþjónustunni í Reykjavík voru tilbúnir að leyfa mér að mynda og ég var með þeim í um það bil viku. Ég fékk mjög mikinn aðgang að öllu og þeir treystu mér vel fyrir efninu. Þetta er fræðsluheimildarmynd. Ég læt myndefnið tala og ég tala ekki sjálf inn á myndina. Þeir sem horfa á myndina eiga ekki að hafa neinar spurningar um ferlið þegar sýningunni er lokið. Það er margt sem maður veit ekki um þetta ferli en þetta er eitthvað sem allir þurfa að kljást við einhvern tíma á lífsleiðinni, því miður.“

Myndin er frumsýnd í kvöld í Bíó Paradís.
Myndin er fimmtíu mínútur að lengd en styttri útgáfa af henni var sýnd á Skjaldborgarhátíðinni síðasta sumar.

„Þar fékk ég rosalega góðar viðtökur frá fólki á öllum aldri sem kom mér eiginlega á óvart.“

Dauðans alvara er frumsýnd í dag í Bíó Paradís og verður auk þess sýnd bæði laugardag og sunnudag. Ekki er ljóst hvort sýningarnar verða fleiri en Áslaug hefur áhuga á að gera fleiri heimildarmyndir í framtíðinni.

„Þetta er fyrsta heimildarmyndin sem ég klára og ég hef mikinn áhuga á að gera fleiri myndir. Þetta er ástríða hjá mér og mér finnst þetta virkilega gaman og gefandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.