Innlent

Landsbankinn dæmdur til að greiða 14 milljónir króna

Hjörtur Hjartarson skrifar
Hæstiréttur dæmdi í dag Landsbankann til að endurgreiða manni sex og hálfa milljón króna sem hann hafði ofgreitt bankanum vegna gengisláns. Bankinn vissi að hann væri í órétti en neyddi viðskipta vin sinn engu að síður til að fara með málið alla leið í hæstarétt, segir lögmaður mannsins.

Gengistryggt lán var tekið hjá gamla Landsbankanum skömmu fyrir hrun. Við fall krónunnar hækkaði lánin það mikið að umræddur viðskiptavinur réð ekki við afborganir á því. Hann samdi því við bankann um að greiða lánið með 30 milljón króna yfirdráttarláni sem hann fékk gegn veði í fasteignum hans og foreldra hans. Við fall bankans 2008 færðist yfirdráttarlánið yfir í nýja Landsbankann. Yfirdráttarlánið var síðan greitt upp að fullu á tilsettum tíma. Þegar dómstólar úrskurðuðu að gengislánin hafi verið ólögleg fór maðurinn fram á að bankinn endurgreiddi honum þann mismun sem hann átti inni, samtals ríflega sex milljónir króna. Landsbankinn hafnaði hinsvegar kröfu mannsins á þeim forsendum að ekki þótti sannað að yfirdráttarlánið tengist ólöglegu gengisláni á neinn hátt. Héraðsdómur úrskurðaði manninum í vil en Landsbankinn áfrýjaði. Hæstiréttur staðfesti síðan dóm héraðsdóms í dag.

Haukur Birgisson, lögmaður stefnanda
"Við byggðum á því að þeim hafi verið það ljóst að þetta lán hafi verið alltof hátt og þessvegna hafi umbjóðandi minn verið krafinn um alltof háa fjárhæð sem hann svo á endanum greiddi. Auðvitað er bankanum ekki stætt á að halda eftir slíkri ofgreiðslu ef að hann veit að greiðslan var of há. Að mati umbjóðanda míns vissu starfsmenn bankans alveg að lánið hafi verið alltof hátt. Þetta voru sömu starfsmenn og í gamla bankanum. Eina sem hafði breyst var að kennitalan var orðin önnur," segir Haukur Birgisson, lögmaður stefnanda.

Þessu voru bæði héraðs og hæstiréttur sammála. Bankið hefði mátt vita að skuldin væri vegna gengisláns og bæri því að endurgreiða stefnanda rúmar 12 milljónir króna með dráttarvöxtum meðtöldum að auk þarf bankinn að greiða 1,8 milljón króna í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×