Innlent

Málþing um byggingarreglugerð

Samúel Karl Ólason skrifar
Reykjavíkurborg heldur málþing um áhrif byggingarreglugerðar á leigumarkað og litlar íbúðir.
Reykjavíkurborg heldur málþing um áhrif byggingarreglugerðar á leigumarkað og litlar íbúðir. Mynd/Vilhelm
Opið málþing um áhrif byggingarreglugerðar á uppbyggingu leigumarkaðar og framboð lítilla íbúða á höfuðborgarsvæðinu verður haldið næstkomandi fimmtudag.

„Reykjavíkurhúsin og Reykjavíkuríbúð 21. aldarinnar eru samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar um eflingu leigumarkaðar og þróun nýrra íbúða. Á málþinginu verður meðal annars leitað svara við því hvort byggingarreglugerð gefi svigrúm fyrir slíka nýsköpun?,“ segir í frétt á vef Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurhúsin snýr að uppbyggingu hagkvæmra og áhugaverðra fjölbýlishúsa þar sem félagsleg blöndun er tryggð. „Stefnt er að byggingu 400 – 800 íbúða í 15 – 30 húsum á næstu þremur til fimm árum. Reykjavíkurborg hefur efnt til samstarfs Félagsbústaða, Félagsstofnunar stúdenta, Búseta, byggingarfélags fatlaðra og aldraðra, auk annarra farsælla uppbyggingaraðila á húsnæðismarkaði um þetta verkefni.“

„Verkefninu Reykjavíkuríbúð 21. aldarinnar  var nýverið hleypt af stokkunum í samstarfi við Hönnunarmiðstöð og Samtök iðnaðarins, auk virks samráðs við fagfélög og þverfagleg teymi.  Verkefnið er skilgreint sem hugmyndavettvangur sem mögulega leiði til hugmyndasamkeppni.  Opna á fyrir þróun í skipulagi íbúðahverfa, íbúðarhúsa og innra fyrirkomulagi þeirra. Mæta á þörf fyrir vistvænni, samfélagsmeðvitaðri og framsæknari búsetukostum í þéttbýli.“

Reykjavíkurborg stendur að málþinginu sem er opið öllum og ókeypis, í samstarfi með Mannvirkjastofnun og fleiri aðila. Málþingið hefst klukkan 13:00 og verður í Borgartúni 12-14 í húsakynnum Reykjavíkurborgar við Höfðatorg. Skráningu skal senda á netfangið sea@reykjavik.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×