Lífið

Kettir eiga stóran sess í hjörtum fólks

Sara McMahon skrifar
Friðrik J. Martell og eiginkona hans, Sólrún Gunnarsdóttir, starfrækja síðuna Kattavaktina á Facebook. Þangað getur fólk leitað hafi það týnt ketti sínum.
Friðrik J. Martell og eiginkona hans, Sólrún Gunnarsdóttir, starfrækja síðuna Kattavaktina á Facebook. Þangað getur fólk leitað hafi það týnt ketti sínum. fréttablaðið/valli
Friðrik J. Martell sálfræðinemi og eiginkona hans, Sólrún Gunnarsdóttir fiðluleikari, standa að baki síðunni Kattavaktin sem er á samskiptamiðlinum Facebook. Síðan telur 525 meðlimi og er markmið hennar að deila upplýsingum um týnda ketti.

Friðrik og Sólrún eru búsett í Vesturbæ Reykjavíkur þar sem mikið er um ketti. „Raunin er sú að kettir eiga mjög stóran sess í hjörtum margra og í hverfi eins og Vesturbænum er mikið af fólki sem þekkir nágrannakettina vel. Okkur datt í hug hvort það væri ekki sniðugt að virkja þetta fólk í leitinni að týndum köttum," útskýrir Friðrik þegar hann er inntur eftir því hver hvatinn hafi verið að baki stofnun síðunnar. Hann segir fólk duglegt að fylgjast með færslum inni á síðunni og veit til þess að einn köttur hafi skilað sér heim vegna hennar.

„Fólk er mjög duglegt að fylgjast með og nú er til dæmis verið að skipuleggja leit að einum ketti sem hvarf úr hverfinu. Sá hefur verið týndur í um tvær vikur og nýverið bárust fréttir af honum í slæmu ástandi við Eiðistorg. Við hjónin erum ekki bílandi þannig við nýtum gjarnan göngutúrana okkar í að svipast um eftir týndum köttum."

Hjónin eiga sjálf tvo ketti; kettlinginn Bilbó og hinn sjö ára gamla Svein. Báðir kettirnir eru innikettir en að sögn Friðriks slapp Sveinn eitt sinn út skömmu eftir að þau höfðu tekið hann að sér. „Við könnumst við áhyggjurnar sem fylgja því að týna ketti. Þeir eru mikilvægir fjölskyldumeðlimir og margir upplifa tilfinningalega krísu þegar kettirnir týnast. Sérstaklega þegar fólk veit ekki hvað varð um dýrin og skilur ekkert í því af hverju þeir birtast ekki á síðu Kattholts eða hjá Lögreglunni þrátt fyrir að vera örmerktir."

Áður en Friðrik hóf nám í sálfræði nam hann mannfræði við Háskóla Íslands. Hann viðurkennir að þessi sterku tengsl sem fólk myndar við dýrin sín veki áhuga hans. „Ég er nú ekki kominn nógu langt í sálfræðináminu til að rannsaka þetta efni en þetta tengist áhugasviðinu," segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.