Skoðun

Á hækjum flóttans

Þorvaldur Þorvaldsson skrifar
Þriðjudaginn 19. febrúar birtist í Fréttablaðinu grein eftir Þröst Ólafsson undir yfirskriftinni „Á vængjum óttans“. Þar heldur hann því fram á óvenju ósvífinn hátt að andstaðan við aðild að Evrópusambandinu byggist á tilfinningum og trúarsetningum en skynsemisrök mæli með aðild. Hann gerir ekki tilraun til að rökstyðja þetta álit á neinn hátt heldur spinnur út frá því eins og það sé sjálfgefið. Þar með er hann búinn að gera sína skoðun að trúarsetningu og það er aðeins ein af mörgum þversögnum í greininni.

Sannleikurinn er sá að skynsemisrökin mæla eindregið gegn aðild að ESB fyrir stærstan hluta þjóðarinnar, fyrir alþýðuna. Þau benda ekki til aukinnar velferðar og velgengni innan ESB. Þvert á móti er það stefna ESB að auka markaðsvæðingu og einkarekstur í velferðarkerfinu til hins ýtrasta. Fyrir tveimur árum var t.d. Dönum skipað að skera niður opinber framlög til velferðarmála um 30 milljarða danskra króna alveg óháð því hvort ríkiskassinn þyrfti á því að halda.

Efnahagslegur vígvöllur

Evrópusambandið er einn efnahagslegur vígvöllur þar sem þeir ríkustu geta hindrunarlítið lagt undir sig allt sem tönn á festir og notað það til að auka enn á ójöfnuðinn. Fyrir nokkrum árum voru uppi mikil áform um að gera Ísland að miklu fjármálaveldi sem myndi skáka öðrum fjármálamiðstöðvum. Það fór ekki vel eins og flestum er ljóst. Það er ekkert sem bendir til þess að Ísland kæmist betur frá efnahagsvígvelli Evrópusambandsins. Fleira bendir til að við lentum í svipaðri stöðu og Grikkir sem eru þvingaðir til að taka stærri og stærri „lán“ á verri og verri kjörum til að bjarga bönkunum meðan fólkið sveltur.

Til að bæta lífskjör hér á landi þarf fyrst og fremst að auka jöfnuð. Til þess þarf meira af félagslegum lausnum og að vinda ofan af markaðsvæðingu á innviðum samfélagsins. Það mun einnig renna stoðum undir stöðugleika og styrk gjaldmiðilsins. Til að þetta nái fram að ganga þurfum við á sjálfstæði okkar að halda til að geta tekið lýðræðislegar ákvarðanir í þágu yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar.

Það þarf því engan ótta til að beita sér gegn aðild að ESB. Bara skynsemi. Það sem aðildarsinnar óttast hins vegar er að þeim takist ekki að blekkja okkur inn í sambandið áður en það leysist upp í innri mótsetningum fyrir allra augum. Þess vegna reyna þeir að flýja veruleikann til að blekkja almenning. Langsótt málskrúð Þrastar Ólafssonar er eins konar hækjur þess flótta.




Skoðun

Sjá meira


×