Innlent

Vopnuð íhlutun er alltaf sísti kosturinn

Þorgils Jónsson skrifar
Hann segir að miðað við núverandi ástand heimsmálanna sé margt sem kalli á viðbrögð alþjóðasamfélagsins, sérstaklega í Sýrlandi.
Hann segir að miðað við núverandi ástand heimsmálanna sé margt sem kalli á viðbrögð alþjóðasamfélagsins, sérstaklega í Sýrlandi. Fréttablaðið/Vilhelm
Vopnuð íhlutun í þeim tilgangi að skipta um stjórnendur ríkis eða bylta stjórnskipan kann aldrei góðri lukku að stýra. Þetta segir John Prescott, fyrrverandi aðstoðarforsætisráherra Bretlands, í samtali við Fréttablaðið. Prescott er meðal ræðumanna á ráðstefnu um mannréttindi, sem innanríkisráðuneytið stendur að.

„Þetta snýst um að vernda mannréttindi einstaklinga. Annars vegar er það hægt með því að fara í gegnum Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaglæpadómstólinn, en hinn valmöguleikinn, sem er jafnan mun síðri, er hernaðaríhlutun og innrás.“

Prescott tók virkan þátt í aðdraganda innrásarinnar sem aðstoðarforsætisráðherra Tonys Blair. „Blair vildi fara með málið í gegnum SÞ, en það gekk ekki eftir. Því varð takmark verkefnisins eftir höfði Bandaríkjamanna; að velta Saddam úr stóli.“

Prescott segist alltaf hafa verið mótfallinn þeirri nálgun, en eftir fund með Dick Cheney, þáverandi varaforseta, og forystumönnum á þinginu hafi hann sannfærst um að Bandaríkjamenn ætluðu inn, með Bretum eða án.

Prescott segir eftirleikinn af innrásinni sýna glöggt hvernig fer ef slíkum aðferðum er beitt.

„Með innrás losnarðu við þann sem þú vilt burt, en þú skilur eftir algjöran glundroða. Hundruð þúsunda eru nú í verra ástandi en fyrir íhlutunina. Það var farið inn á fölskum forsendum, og að mínu mati var það rangt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×