Ólafsvíkur-Víkingar taka á móti Eyjamönnum í 5. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta klukkan 18.00 í kvöld en Ólsarar eru enn að bíða eftir sínu fyrsta stigi í efstu deild. Það hefur bara eitt lið þurfa að bíða jafnlengi eftir sínu fyrsta stigi í efstu deild og það félag þreytti frumraun sína í efstu deild fyrir meira en hálfri öld síðan.
Víkingar hafa tapað fyrstu fjórum leikjum sínum þar af tveimur þeirra á heimavelli, 1-2 á móti Fram og 1-3 á móti Keflavík. Leikir liðsins á Akureyri (0-1 á móti Þór) og í Garðabænum (2-3 á móti Stjörnunni) töpuðust einnig.
Það þarf að fara allt til ársins 1962 til að finna félag sem þurfti að bíða jafnlengi eftir sínu fyrsta stigi í efstu deild en Ólafsvíkur-Víkingar fóru upp fyrir Víðismenn (1985) og Hauka (1979) þegar þeir töpuðu nýliðaslagnum á Þórsvellinum í síðustu umferð.
Ísfirðingar fengu ekki sitt fyrsta stig fyrr en í sínum fimmta leik sumarið 1962 þegar þeir náðu óvæntu markalausu jafntefli við Skagamenn. Það var eina stig Ísfirðinga þetta sumar.
Frá árinu 1997 höfðu fimm félög bæst í hóp efstu deildar félaga og öll voru þau búin að ná í sitt fyrsta stig í fyrstu tveimur leikjunum. Tvö þeirra unnu sinn fyrsta leik, Skallagrímur og Fjölnir.
Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir það hversu lengi félög hafa þurft að bíða eftir sínu fyrsta stigi í efstu deild.
Hvenær kom fyrsta stigið í efstu deild:
(Frumraun félaga 1959-2012)
Í fimmta leik
ÍBÍ, 1962 - 0-0 jafntefli við ÍA
(Víkingur Ó., 2013 - Enn að bíða, fjórir leikir búnir)
Í fjórða leik
Víðir, 1985 - 1-0 sigur á Víkingi
Haukar, 1979 - 2-1 sigur á ÍA
Í þriðja leik
Grindavík, 1995 - 3-2 sigur á Leiftri
Í öðrum leik
Selfoss, 2010 - 2-1 sigur á KR
Fylkir, 1989 - 2-0 sigur á Þór Ak.
Völsungur, 1987 - 1-0 sigur á Þór Ak.
Þór Ak., 1977 - 1-1 jafntefli við Víking
Breiðablik, 1971 - 2-0 sigur á Val
Í fyrsta leik
Fjölnir, 2008 - 3-0 sigur á Þrótti
HK, 2007 - 0-0 jafntefli við Víking
ÍR, 1998 - 1-1 jafntefli við Grindavík
Skallagrímur, 1997 - 3-0 sigur á Leiftri
Stjarnan, 1990 - 2-0 sigur á Þór Ak.
Leiftur, 1988 - 0-0 jafntefli við ÍA
KA, 1978 - 2-2 jafntefli við Breiðablik
FH, 1975 - 1-0 sigur á Fram
ÍBV, 1968 - 3-1 sigur á Val
